152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

mótun stefnu í aðdraganda aðgerðaáætlunar í heilbrigðisþjónustu við aldraða til ársins 2030.

418. mál
[23:23]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það sem kannski truflar mig hérna er að mér finnst þetta bara svolítið seint í rassinn gripið. Hér er talað um sýn, vegferð og markmið. Nú er það þannig að flokksfélagi hæstv. ráðherra, hæstv. barnamálaráðherra, kom aldeilis af krafti inn í þingið á síðasta kjörtímabili, í upphafi þess, með sýn, markmið, vegferð og fleiri ágæta frasa sem lutu að þjónustu við börn. Hvað sjáum við nú fjórum árum seinna, þremur til fjórum árum seinna? Biðlistar eru lengri en nokkru sinni fyrr. Þeir hafa lengst nánast á hverju einasta ári þessarar ríkisstjórnar og meðalbiðtími aukist líka. Við sjáum að Barnahús er, eins og ég nefndi áðan og vitnaði í forstjóra Barna- og fjölskyldustofu, löngu sprungið. Það er verið að loka vist- og meðferðarheimilum. (Forseti hringir.) Ég má ekki til þess hugsa að það sama komi fyrir (Forseti hringir.) þegar kemur að heilbrigðisþjónustu við eldra fólk, að lagt verði af stað í vegferð með markmið og sýn (Forseti hringir.) en svo verði allt í volli næstu árin vegna þess að ríkisstjórnin treystir sér ekki til að setja fjármuni í verkefnin og forgangsraða og reka alvöruríkisfjármálapólitík í þágu velferðar.