Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 55. fundur,  23. mars 2022.

störf þingsins.

[15:53]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar að tala aðeins um borgina okkar, um Reykjavík, best rekna sveitarfélagið á höfuðborgarsvæðinu. Það er eiginlega alveg sama hvaða mælikvarða við notum, hvort við viljum skoða skuldahlutfall, skuldir á hvern íbúa eða veltufjárhlutfall, það er alltaf Reykjavík sem kemur best út. Þetta gerist þrátt fyrir að Reykvíkingar verji miklu meiri fjármunum til félagsþjónustu en aðrir íbúar höfuðborgarsvæðisins, þrátt fyrir að borgin standi undir miklum meiri hluta allrar fjárhagsaðstoðar á Íslandi og að hér séu greiðslurnar líka hærri en víðast hvar. Og ofan á þetta bætist líka, þrátt fyrir alla síbylju sérhagsmunaafla um annað, að það er borgin sem er í algjöru forystuhlutverki þegar kemur að því að liðka fyrir félagslegri húsnæðisuppbyggingu. Þetta er staðreynd. Auðvitað væri hægt að gera enn þá betur; ef stofnframlög til almenna íbúðakerfisins yrðu aukin og ef mótuð yrði hérna alvöru húsnæðisáætlun fyrir landið allt og komið upp einhverri samræmdri áætlun um það hvernig við ætlum að auka framboð af húsnæði.

Borgin er líka í forystu þegar kemur að loftslagsmálum, ólíkt ríkisstjórninni. Ætli þéttingarstefna og aðalskipulagið séu ekki svona u.þ.b. stærstu einstöku loftslagsaðgerðir sem ráðist er í hér á Íslandi? Og hvernig var það nú aftur þegar ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur mistókst gersamlega að koma ríkisfjárfestingum af stað hérna í heimsfaraldri? Þá var það einmitt Reykjavíkurborg, undir forystu jafnaðarmanna, sem steig inn af krafti og dró vagninn í opinberum fjárfestingum með sögulegu fjárfestingarátaki strax árið 2020. Þannig á nefnilega bregðast við efnahagskreppu. Það skiptir máli hver stjórnar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) (Gripið fram í: Heyr, heyr.)