152. löggjafarþing — 59. fundur,  29. mars 2022.

um fundarstjórn.

[13:55]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Frú forseti. Já, það er pínu hjákátlegt að það hafi gleymst að boða fólk á fund. Ég held að afsökunarbeiðninni sé ágætlega tekið en það er náttúrlega ekki akkúrat þetta tilvik sem er það alvarlegasta. Mér fannst skemmtilegt að heyra nefnt hérna það sem kom fram í stjórnarsáttmála fyrri ríkisstjórnar, sem vill svo til að er í rauninni sú sama núna, varðandi eflingu Alþingis. Þetta er ekki í stjórnarsáttmála og ég tek undir með hv. þm. Bergþóri Ólasyni um að það sé að ákveðnu leyti jákvætt skref að látið hafi verið af þeirri sýndarmennsku sem fólst í þeim orðum. Það er fleira alvarlegt sem er að gerast sem gengur akkúrat gegn þessu markmiði um eflingu Alþingis. Að stjórnsýslunni óátalinni af hálfu þingsins, af hálfu meiri hluta þingsins, sem ætti nú að hafa eitthvað yfir stjórnsýslunni að segja, eru stjórnsýslustofnanir farnar að skipa þinginu fyrir verkum, meirihlutavaldi er beitt til að fá aukinn meiri hluta í nefndum (Forseti hringir.) og svo gleymist að boða fulltrúa minni hlutans á fundi. Afsökunarbeiðnin er eflaust móttekin en þetta er orðið dálítið vont og ljótt munstur. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)