Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 61. fundur,  4. apr. 2022.

ákvörðun nr. 22/2020 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

434. mál
[16:49]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 22/2020. Ákvörðunin fellir inn í EES-samninginn þrjár gerðir á sviði fjármálaþjónustu. Um er að ræða reglugerð (ESB) 2017/1131 um peningamarkaðssjóði og tvær reglugerðir sem útfæra ákvæði hennar nánar.

Peningamarkaðssjóðir veita skammtímafjármögnun til fjármálastofnana, lögaðila og ríkisstjórna. Í gerðunum er kveðið á um skilyrði þess að mega reka slíka sjóði á Evrópska efnahagssvæðinu.

Markmið reglugerðanna er m.a. að ýta undir fjárhagslegan stöðugleika á innri markaðnum og auka fjárfestavernd. Það er m.a. gert með því að koma í veg fyrir áhættuna af áhrifum peningamarkaðssjóða á raunhagkerfið og á bakhjarla sjóðanna. Það er einnig gert með því að draga úr óhagræði fyrir þá sem óska seint innlausnar, sérstaklega þegar óróleiki er á mörkuðum.

Með innleiðingu þessara reglna gefst íslenskum aðilum kost­ur á að starfrækja og markaðssetja peningamarkaðssjóði innan Evrópska efnahagssvæðisins, hvort sem er á formi verðbréfasjóða eða sérhæfðra sjóða. Eins gefst aðilum á Evrópska efnahagssvæðinu tækifæri til að markaðssetja slíka sjóði hér á landi. Reglurnar leiða til aukinnar fjárfestaverndar með auknum seljanleika peningamarkaðssjóða og sterkara fyrirkomulagi sjóðanna. Þær leiða einnig til betra jafnvægis á peningamörkuðum innan EES til hagsbóta fyrir fjárfesta, útgefendur skammtímaskulda og banka sem hafa stutt við peningamarkaðssjóði.

Virðulegi forseti. Ákvörðunin kallar á lagabreytingar hér á landi. Áformað er að innleiða reglugerð (ESB) 2017/1131 með nýjum heildarlögum um peningamarkaðssjóði. Stefnt er að framlagningu frumvarps þess efnis á yfirstandandi löggjafarþingi. Afleiddu gerðirnar verða innleiddar með reglugerð og reglum með stoð í fyrrnefndri löggjöf. Það er mat fjármála- og efnahagsráðuneytis að innleiðing reglugerðanna þriggja muni ekki hafa veruleg áhrif á stjórnsýslu ríkisins og engin áhrif á fjárhag þess.

Ég legg til, virðulegi forseti, að þegar umræðu þessari lýkur verði tillögunni vísað til hv. utanríkismálanefndar.