152. löggjafarþing — 63. fundur,  6. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[17:58]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Aftur erum við farin að ræða útlendingamálin undir allt öðrum lið. Frumvarpinu er ætlað og markmið þess er að auka á skilvirkni gagnvart þeim sem hingað leita, að þeir viti að hvaða reglum þeir ganga. Þessi leikvöllur þarf að vera skýr. Hann hefur verið mjög óskýr og það hefur m.a. leitt það af sér að hingað hefur leitað hópur fólks sem er með umsóknir sem fyrir fram er vitað að mun verða hafnað. Síðan hefst þessi málsmeðferðartími sem er óþægilegur öllum og ekki síst þeim sem hingað sækja. Þannig að við erum einmitt að horfa til þessara breytinga til að samræma reglur okkar við þær reglur sem gilda í Evrópuríkjum.

Hv. þingmaður orðaði það sem svo að við værum að apa eftir öðrum. Það hefur hver sína nálgun á það hvernig orðum er komið að því þegar við erum að gæta samræmis í okkar helstu samstarfsríkjum, ríkjum Evrópusambandsins og Norðurlandanna. Ég nálgast það á þeim nótum að það yrði öllum til hagsbóta, líka þeim sem hingað sækja, að þau gangi að samræmdum reglum í þessum efnum. Ég fullyrði eftir sem áður að sú þjónusta sem við veitum þessu fólki er ekki síðri en í öðrum löndum, að mörgu leyti örugglega mun betri. Það er ekkert markmið okkar að draga úr henni. Við munum áfram taka á móti þeim af heilum hug sem hingað leita, sem stendur ógn af veru sinni í sínu heimalandi eða öðrum löndum. Það verður engin breyting á því, virðulegur forseti.