152. löggjafarþing — 71. fundur,  28. apr. 2022.

listamannalaun.

408. mál
[19:39]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég tek undir hvert einasta orð sem kom fram í ræðu hv. þm. Loga Einarssonar og þakka framsögu frá hv. þm. Lilju Rannveigu Sigurgeirsdóttur. Þetta frumvarp felur í sér að samanlögðum starfslaunum listamanna verði fjölgað tímabundið á yfirstandandi ári, úr 1.600 mánaðarlaunum upp í 1.800 mánaðarlaun sem skiptast á milli sviðslistafólks og tónlistarflytjenda. Þegar frumvarpið kom fyrst inn frá menningar- og viðskiptaráðuneytinu var það gallað að því leytinu til að það var mjög mikið misræmi á milli þess sem fram kom í greinargerð og þess sem kemur fram í frumvarpstextanum. Samkvæmt greinargerðinni átti frumvarpið að styðja sérstaklega við unga listamenn meðal tónlistarflytjenda og sviðslistafólks, með leyfi forseta, „efla unga listamenn sem oft eru að stíga sín fyrstu skref eftir nám eða að hefja feril sinn“. Í frumvarpstextanum var í raun njörvað niður að til yngri tónlistarflytjenda ættu að renna 50 mánaðarlaun árið 2022, hvorki fleiri né færri. Það liggur hins vegar fyrir að nú þegar á þessu ári hefur 50 mánaðarlaunum verið úthlutað til þessa aldurshóps. Það var gert í janúar síðastliðnum. Það þarf ekki mikla rannsóknarvinnu til að leiða það í ljós, það er bara hægt að fletta upp kennitölu þeirra sem fengu úthlutun. Þar með er umrætt skilyrði frumvarpsins um að a.m.k. 50 mánaðarlaun af heildarfjölda starfslauna skuli vera til ungra tónlistarflytjenda nú þegar uppfyllt. Fyrir vikið liggur fyrir að viðbótarmánuðirnir 150, sem tónlistarflytjendum eru ætlaðir með þessu frumvarpi, geta runnið til tónlistarflytjenda algerlega óháð aldri þeirra. Það er þannig. Það samrýmist augljóslega ekki yfirlýsingum um að með viðbótarframlaginu sé sérstaklega verið að styðja unga tónlistarflytjendur. Óbreytt hefði frumvarpið í raun geta leitt til þess að viðbótarmánuðirnir 150 rynnu allir til þeirra sem eru 35 ára og eldri.

Hæstv. menningar- og viðskiptaráðherra var mjög ánægð með málið þegar hún talaði fyrir því fyrir nokkrum vikum, gerði heldur lítið úr þeim spurningum sem var varpað fram hér í þingsal. En ég er ánægður með að allsherjar- og menntamálanefnd hafi ráðið bót á þessu og lagt til breytingu sem tekur af allan vafa um að hér sé um að ræða lágmarksmánaðafjölda en ekki fastan mánaðafjölda.

Það er mikilvægt að fjölga starfslaunum listamanna. Ég myndi reyndar gjarnan vilja fjölga þeim varanlega en ekki bara tímabundið, en þetta er engu að síður mjög þarft skref sem við í Samfylkingunni styðjum. Hvað varðar tónlistarflytjendur þá vil ég benda á að með þessu frumvarpi, hvort sem við miðum við upprunalegt frumvarp ráðherra eða frumvarpið með þeim breytingum sem allsherjar- og menntamálanefnd leggur til, er ekki verið að styðja neitt sérstaklega við unga tónlistarflytjendur þótt því sé haldið fram. Lágmarkið um 50 starfslaunamánuði tryggir það ekki, enda hafa þegar verið veittir 50 starfslaunamánuðir til tónlistarflytjenda yngri en 35 ára á þessu ári. Með þessu frumvarpi er líka verið að fara aðra leið en var t.d. kynnt á Stjórnarráðsvefnum með pompi og prakt þann 25. janúar. Þar kom fram, með leyfi forseta:

„Með því eru 150 mánaðarlaun tryggð til viðbótar við nýlega úthlutun sjóðsins til tónlistarflytjenda árið 2022. Þar af verður úthlutun 50 mánaðarlauna bundin því skilyrði að ungt tónlistarfólk undir 35 ára aldri njóti góðs af þeim.“

Þarna var sem sagt boðað að 50 mánaðarlaun af viðbótarúthlutuninni rynnu til ungra tónlistarflytjenda en í frumvarpinu, með þeim breytingum sem eru lagðar til, eru það bara 50 mánaðarlaun af heildarfjölda mánaðarlauna sem í raun breytir engu á þessu ári. Mun það breyta einhverju á næsta ári? Nei, af því að þetta frumvarp felur ekki í sér neina varanlega breytingu hvað þetta varðar. Þetta snýst bara um árið 2022. Svo ég veit ekki alveg til hvers hún er, þessi skilyrðing við ungt fólk, kannski er þetta bara eitthvað táknrænt eða einhvers konar auglýsingamennska, alla vega mun þessi skilyrðing ekki breyta neinu í raun og veru. Samt er ýjað að öðru í greinargerð. Þetta frávik frá áformum ríkisstjórnarinnar sem kynnt voru í janúar á Stjórnarráðsvefnum er hvergi rökstutt eða fjallað um það í greinargerðinni og það finnst mér ekki samrýmast sjónarmiðum um vandaða lagasetningu, verð ég að segja.

Annað atriði sem ég vil velta upp lýtur að framkvæmdinni við þessa aukaúthlutun. Ég sakna þess svolítið að í þessu frumvarpi sé ekki að finna neina almennilega forskrift til úthlutunarnefnda um það hvernig eigi að nálgast nýjar umsóknir frá þeim sem þegar hlutu starfslaun við aðalúthlutunina í janúar síðastliðnum. Það vakna spurningar eins og hvort viðbótarframlaginu verði beint til þeirra sem engin starfslaun hafa fengið þetta árið eða eiga þeir sem þegar hafa fengið starfslaun árið 2022 alveg nákvæmlega sama tilkall til væntanlegrar aukaúthlutunar og þeir umsækjendur sem ekki fengu starfsleyfi í janúar? Ef ekki, er litið til þess hvort umsækjendur hafi þegar fengið úthlutun? Svo virðist vera í frumvarpinu. Það er ekkert um þetta. Skiptir þá engu máli hvort umsækjendur eru að sækja um laun til að vinna að sama verkefni og þau fengu laun í janúar til að vinna að eða hvort þeir eru að sækja um starfslaun vegna nýs verkefnis? Ef þeir eru að sækja um laun vegna nýs verkefnis, þurfa þá úthlutunarnefndirnar að leggja mat á samspil þessara tveggja umsókna, vinnuáætlunar og kostnaðaráætlunar og hvort ætla megi að umsækjandi geti unnið bæði verkefnin á sama tíma? Ég hef ekki svör við þessu en ég er bara að benda á að í þessu frumvarpi er ekki tekin nein afstaða til þessa heldur, þannig að úthlutunarnefndirnar er í rauninni skildar svolítið eftir með þetta verkefni í fanginu án þess að hafa alveg skýra forskrift til að vinna eftir frá löggjafanum um þetta.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Ég vildi aðallega bara að koma hingað upp til að fagna þessu og lýsa yfir eindregnum stuðningi við að starfslaunamánuðum listamanna sé fjölgað. En ég vildi líka vekja athygli á upplýsingaóreiðunni sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir í þessu máli, mér finnst hún algerlega óþörf. Það er gott mál að fjölga starfslaunamánuðum og það þarf ekkert að vera að fegra það með einhverri svona vitleysu eins og þegar frumvarpið var kynnt. Annars styð ég eindregið þetta mál.