152. löggjafarþing — 72. fundur,  29. apr. 2022.

um fundarstjórn.

[11:34]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Hingað kemur upp hv. þm. Ágúst Bjarni Garðarsson og spyr hverju við séum að reyna að ná fram. Í óundirbúnum fyrirspurnatíma, þar sem við komum hér upp og beinum fyrirspurnum til ráðherra, erum við að reyna að ná fram svörum fyrst og fremst. Það var tilgangur minn áðan, að fá svör við því annars vegar hvort ráðherra áttaði sig á því að ummæli hans fælu í sér lögbrot, brot á lögum sem leggja refsingu við þeirri háttsemi, algerlega óháð því hvernig málum lýkur í þeim persónulegu samskiptum sem áttu sér stað. Hin spurningin var: Hvað ætlið þið að gera? Þau orð sem hér hafa fylgt í kjölfarið af hálfu þingmanna Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins sýna glöggt það viðhorf að það sé ekkert vandamál, það sé ekki kerfisbundið vandamál. Hér er enginn rasismi sem þarf að laga. Þetta var bara eitthvað óheppilegt persónulegt atvik sem ráðherra er búinn að útkljá við þann einstakling sem það snerist um. Þau gera sér enga grein fyrir þeim áhrifum sem þetta atvik hefur á tugþúsundir einstaklinga í þessu landi. (Forseti hringir.) Þessari afsökunarbeiðni verða að fylgja aðgerðir. Spurningin var einföld. Þannig (Forseti hringir.) að ég svara spurningu hv. þm. Ágústs Bjarna Garðarssonar: (Forseti hringir.) Ég vil bara fá svör. Það var það sem ég var að reyna að ná fram.