152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[20:56]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmanni verður tíðrætt um ákvæði 33. gr. og heimild til undantekninga vegna veikinda, fötlunar og annars sem við hljótum öll að vera sammála um að taka þurfi tillit til. Mig langar að spyrja hv. þingmann: Hvernig ætlar Vinstrihreyfingin – grænt framboð að tryggja að tekið verði tillit til þessara atriða? Hver sinnir því? Eru það almennir starfsmenn og Útlendingastofnun sem meta það með sínum hætti hver sé í viðkvæmri stöðu, hver þurfi á sérstakri vernd að halda og hver ekki? Eða verða einhverjir aðrir kallaðir til? Eins og þetta er skrifað inn í frumvarpið núna og tíðkast, eins og hér hefur ítrekað komið fram, er mikil hætta á geðþóttaákvörðunum sem byggja ekki á almennilegu mati á þörf fólks fyrir vernd. Þar liggur hættan í þessu frumvarpi. Hún er sú að við neitum fólki, sem vissulega er verndarþurfi, um þá vernd sem því ber að fá samkvæmt lögum.