Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[20:59]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Með leyfi forseta ætla ég að leyfa mér að lesa upp úr forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands sem tók gildi 1. febrúar síðastliðinn. Þar segir í ákveðnu ákvæði, 27. tölulið 2. gr., að hæstv. dómsmálaráðherra fari með málefni útlendinga, að frátöldum atvinnuleyfum, samanber x-lið 4. töluliðar 3. gr., og þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd, samanber g-lið 2. töluliðar 3. gr. Þetta verður ekki mikið skýrara. Ég tek undir orð hv. þm. Jóhanns Páls Jóhannssonar að það er nauðsynlegt að sá ráðherra sem fer með allt er varðar þjónustu við fólk á flótta og umsækjendur um alþjóðlega vernd komi í salinn.