152. löggjafarþing — 77. fundur,  18. maí 2022.

geðheilbrigðismál og endurskoðun lögræðislaga.

[15:50]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég vil árétta það að þær niðurstöður sem koma fram í þessari skýrslu umboðsmanns Alþingis, sem sannarlega eru sláandi, eru ekki nýjar af nálinni. Það kom út sambærileg skýrsla árið 2019 sem sýndi fram á að á geðdeildum eru viðhafðar þvingunarráðstafanir. Fólk er frelsissvipt, gjarnan án lagaheimildar. Lagaheimildir eru ekki skýrar. Reglur eru ekki skýrar. Þetta er mjög alvarlegt mál og í rauninni mjög alvarlegt að ekki hafi verið gripið fyrr inn í.

Ég kalla eftir því að ríkisstjórnin geri grein fyrir því hver næstu skref eru til að koma í veg fyrir þetta og ítreka spurningu mína varðandi þessa þingmannanefnd, sem mér skilst að ætti í reynd að hafa nú þegar hafið störf við heildarendurskoðun lögræðislaga, sem sannarlega eru stór þáttur í að koma þessum málum á réttan kjöl og útrýma þvingunarráðstöfunum og slíku í geðheilbrigðismálum. Ég ítreka spurningu mína til hæstv. forseta.