Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

störf þingsins.

[13:56]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Frú forseti. Til stendur að vísa úr landi hópi fólks sem hefur verið lengi hér á landi, jafnvel frá upphafi Covid-heimsfaraldursins. Til að bregðast við stöðunni hafa þingflokkar Pírata, Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins lagt fram frumvarp þess efnis að aðstæður tengdar heimsfaraldrinum verði ekki taldar á ábyrgð umsækjenda. Það væri enda fáránlegt, virðulegi forseti, að láta aðstæður sem tengjast heimsfaraldrinum bitna á flóttafólki, aðstæður sem það ber augljóslega enga ábyrgð á. Fólkið sem vísa á úr landi hefur margt verið talið bera ábyrgð á töfum á máli sínu vegna þess að það hafi ekki sinnt beiðni um að mæta í svokallað PCR-próf til að komast í flug. Það sem fylgir ekki sögunni er hvernig lögregla og Útlendingastofnun framkvæmdu þessar beiðnir sínar.

Í grófum dráttum má lýsa ferlinu með eftirfarandi hætti: Lögreglan mætir óboðin á heimili umsækjenda og þylur upp texta á eyðublaði á ensku. Enginn túlkur eða lögmaður er viðstaddur og viðkomandi er ekki boðinn slíkur og ekki er orðið við beiðni hans um neitt slíkt. Algengt er að fólk skilji ekki hvað er í gangi. Hafa margir þessara einstaklinga t.d. sagst ekki hafa skilið hvort málið snerist um skimun eða bólusetningu eða eitthvað allt annað, og því síður hverjar afleiðingarnar af því að mæta ekki gætu orðið. Skilji fólk ekki rulluna er því boðið að svara játandi eða neitandi, hvort þau ætli að vera samvinnufús. Skilji þau það ekki heldur eru þau spurð hvort þau vilji fara eða ekki og auðvitað vilja þau ekki fara, en þorra þessa fólks átti að vísa til Grikklands og Ungverjalands eins og fram hefur komið. Berst svo niðurstaða að nokkrum vikum liðnum þess efnis að viðkomandi hafi tafið mál sitt sjálfur og því sé ekki um það að ræða að hann fái að vera. Þó að engrar lagabreytingar sé þörf til að leysa þetta mál höfum við nú boðið Alþingi leið til að taka í taumana og stöðva þessa óboðlegu framkvæmd og hvet ég allan þingheim til að skoða það mál og samþykkja það.