Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[17:27]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir afbragðsræðu, þetta var fínasta yfirferð yfir skýrsluna. Ég var reyndar ekki alveg sammála því sem sagt var í upphafi, þ.e. að þetta snerist meira um framkvæmd stefnunnar, að það væri það sem væri athugavert. Ég held að það sé líka ákveðin grunnhugsunin í kerfinu sem er ekki alveg rétt. Í það minnsta er þessi skýrsla dökk, hún er fulldökk. Ég hjó eftir því að hv. þingmaður fór einmitt í kafla sem ég ætlaði að gera að umtalsefni í ræðu hér á eftir. Hún bendir þar á það sem Ríkisendurskoðun segir um að brýnt sé að aðgengi að upplýsingum um tíðni geðsjúkdóma verði bætt hér á landi, enda hlýtur það að vera mikilvæg forsenda markvissrar stefnumótunar og gæðabætandi starfs. Þá er stofnunin að benda á að SÁÁ hefur um áratugaskeið haldið gagnagrunn sem gefið hefur góða raun. Hann geymir síðan upplýsingar um faraldsfræði fíknisjúkdóma sem veitir innsýn í umfang og eðli fíknivanda og hafa þær upplýsingar verið nýttar í rannsóknir og til að skipuleggja og gæðastýra meðferðum sem boðið er upp á. Þetta er auðvitað eitthvað sem er algerlega til fyrirmyndar.

Ég veit að hv. þingmaður er hægra megin í tilverunni að þessu leyti og þarna erum við einmitt að tala um frjáls félagasamtök. Við erum í raun og veru að tala um einkaframtak, þ.e. SÁÁ sem byggir þessa þjónustu upp. Það sem manni finnst áhugavert við þetta er að þessi einkarekstur gengur að mörgu leyti miklu lengra en ríkisreksturinn gerir þegar kemur að þessum málum, þegar kemur að því að halda utan um upplýsingar og vinna upp úr þeim vísindarannsóknir og annað. Þetta erum við að ræða í dag og í fréttum á mbl.is í dag sjáum við einnig að einkareknar heilsugæslustöðvar fá miklu betri einkunn hjá notendum samkvæmt nýrri könnun Sjúkratrygginga.

Á síðasta kjörtímabili sáum við svolítinn núning á milli stjórnarflokkanna, VG og Sjálfstæðisflokksins, um heilbrigðiskerfið einmitt þegar kemur að einkarekstri. Ég ætlaði að spyrja hv. þingmann hvort henni finnist þetta ekki einmitt vera enn ein rökin fyrir því að við eigum að leita víðar í einkaframtakið (Forseti hringir.) þegar kemur að heilbrigðisþjónustu, þó með þeim skilyrðum að samningar um það séu mjög skýrir og eftirlit virkt.