Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[19:55]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég hef kannski bara aðeins misskilið það sem hv. þingmaður sagði í ræðu sinni áðan. En eins og hér kom fram þá hefur VIRK líka fyllt upp í tómarúm vegna þess, eins og hv. þm. Hanna Katrín Friðriksson bendir á, að aðgengi að fyrsta stigs þjónustu er ekki eins og það á að vera. Bæði er ekki nóg framboð og svo eru líka hömlur vegna þess að fólk hefur ekki efni á að sækja sér þjónustu sjálfstætt starfandi sérfræðinga og borga það að fullu. Og það er alveg rétt að hér grípur starfsendurhæfing á vegum VIRK inn í. En það sem er svo dapurlegt við það er að það er oft þannig að þegar fólk fer loksins til VIRK eða kemst þangað, af því að það eru ekki allir sem komast þangað, það þarf að meta hvern og einn einstakling, þá er því miður oft komið að eindaga. Fólk er jafnvel orðið óvinnufært, það er örmagna. Það glímir við alls kyns geðrænar áskoranir og einnig stoðkerfisvandamál. Og það sem mér finnst endurspegla svo vel ástandið í samfélaginu er að 70% þeirra sem leita til VIRK og fá þar þjónustu eru konur. Fullvinnandi konur sem eru oft að bugast, ekki bara undan álagi í starfi heldur öllu öðru álagi í samfélaginu, annarri og þriðju vaktinni og öllu sem þeim fylgja. Þetta samfélag býr til veikt fólk. Það er bara þannig. Það veldur veikindum, allt þetta álag sem t.d. venjulegar konur búa við á vinnumarkaði.