153. löggjafarþing — 2. fundur,  14. sept. 2022.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[20:23]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Kæra þjóð. Í fleiri en einum skilningi erum við nú minnt á bíómyndina Groundhog Day. Við þekkjum öll þessa mynd um manninn sem vaknar aftur og aftur sama daginn, dag múrmeldýrsins, og endurtekningarnar verða yfirþyrmandi, hver dagur öðrum líkur. Við höfum heyrt gamalkunnug stef hjá ríkisstjórninni hér í kvöld um fögru fyrirheitin og endurteknu loforðin. Fimm ára reynsla af því að hlusta á stefnuræðu forsætisráðherra þar sem sömu stefin eru klifuð ár eftir ár dregur upp skýra mynd. Það sem birtist svo skýrt er hinn pólitíski ómöguleiki þessara þriggja flokka þar sem hver og einn þeirra hefur neitunarvald yfir stefnumálum hinna. Síðast í gær voru Vinstri græn að slá á fingur Sjálfstæðisflokksins og útiloka með öllu aukinn einkarekstur í heilbrigðiskerfinu, einkarekstur sem hefur gefist vel hér á landi og á Norðurlöndunum. En afleiðingin af þessu er helsta einkennismerki ríkisstjórnarinnar: kyrrstaðan. Hverjum hún nýtist síðan best þekkjum við vel, allt of vel. Þessu þarf að breyta því að risastór verkefni bíða okkar. Auðvitað eru engar töfralausnir til. Það leysir ríkisstjórnina samt ekki frá þeirri skyldu að hafa skýra framtíðarsýn, vera hreyfiafl en það er hún ekki. Vöruverð hefur hækkað á ógnarhraða og vextir af húsnæðislánum eru orðnir svimandi háir. Heimilisbókhaldið þolir ekki frekari þrengingar. Verðbólgan er svipuð hér og annars staðar en vextir eru ekki þeir sömu. Íslensk heimili þurfa að greiða miklu hærri vexti en íbúar nágrannaríkjanna. Þetta er kunnuglegt stef í íslenskum veruleika. Fjölskyldur og fyrirtæki landsins vakna aftur og aftur sama daginn í endurteknum víxlverkunum vaxta og verðbólgu sem ná áratugi aftur í tímann.

Þessi kjaramunur er helsti dragbítur framfara, stærsta orsök glataðra tækifæra. Það er skortur á veruleikatengingu að takast ekki af krafti á við nákvæmlega þennan vanda sem er helsta áhyggjuefni fjölskyldnanna í landinu. Þetta er spurning um það að allir hafi jöfn tækifæri. Þegar forstjórar útflutningsfyrirtækja ráðast í nýjar fjárfestingar geta þeir tekið erlend lán á sömu kjörum og erlendir keppinautar. Þannig á það líka að vera. En þegar starfsfólkið þeirra kaupir nýja íbúð eru vextirnir margfalt hærri. Þannig eiga hlutirnir ekki að vera, ekki ef við ætlum að vera land jafnra tækifæra. Þessu þarf að breyta þótt það taki tíma. Sú breyting er kjarninn í þeirri frjálslyndu hugsun sem stefna Viðreisnar byggir á, að við þorum að setja okkur markmið, að Ísland verði land jafnra tækifæra.

Virk og heiðarleg samkeppni er önnur lykilforsenda í þessu en þau sjónarmið heyrast bara ekki á stjórnarheimilinu. Innan ríkisstjórnar eiga neytendur enga bandamenn. Jöfn tækifæri allra byggja líka á því að allir hafi jafnan kosningarétt. Þess vegna skiptir öllu máli að breyta kosningalögunum. Þar er innbyggt óréttlæti. Leiðréttum það misvægi sem nú ríkir milli flokka og íbúa í landinu.

Við þurfum sannarlega að hlaupa hratt til að ná loftslagsmarkmiðunum en ríkisstjórnin fer ekki einu sinni fetið. Í fimm ár hefur hún staðið í sama skófarinu. Engar nýjar ákvarðanir eru teknar um orkuöflun. Engar alvöruaðgerðir í loftslagsmálum. Þessa kyrrstöðu þarf að rjúfa, við erum að falla á tíma.

Breytingar í sjávarútvegi eru tímabærar og í samræmi við ákall almennings. Viðreisn hefur mætt því með tillögum um dreift eignarhald, aukið gagnsæi og skýrari reglur um tengda aðila. Við höfum líka lagt til að markaðsgjald verði greitt fyrir veiðiréttindin. Alveg skýrt. Allt til að draga úr samþjöppun og skapa breiðari sátt um þennan grunnatvinnuveg þjóðarinnar. Frjálslynd markaðsstefna með félagslegri ábyrgð. En í fimm ár hefur ríkisstjórnin ekkert gert í þessum efnum. Þessu þarf að breyta.

Útgjaldaþensla og hallarekstur ríkissjóðs er áhyggjuefni. Tækifærin til endurskipulagningar og einföldunar blasa við en kjarkinn til að forgangsraða vantar. Vandinn er skilinn eftir í fangi næstu ríkisstjórnar eins og Samtök atvinnulífsins hafa bent á. Landspítalann hefði til að mynda munað um þá milljarða sem fóru í fjölgun ráðuneyta en ríkisstjórn án markmiða forgangsraðar ekki heldur þenur út kerfið.

Flestar þjóðir taka nú skref til að styrkja stöðu sína í fjölþjóðlegu samstarfi. Ríkisstjórn Íslands stendur ein og sér og gerir það sem hún gerir best — ekkert. Nákvæmlega ekkert. Viðreisn hefur ítrekað lagt fram tillögur um að leyfa þjóðinni að ákveða sjálf hvort hefja eigi viðræður að nýju við Evrópusambandið enda er alltaf rétti tíminn til að klára það brýna framfaraskref fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu. Þjóðin áttar sig á þessu og kannski er það þess vegna sem hún fær ekki að kjósa um málið. Pólitískur ómöguleiki, kallar ríkisstjórnin í öllu sínu lítillæti en höfum eitt á hreinu, kæra þjóð: Þegar þjóðinni sjálfri er falið að taka ákvarðanir í stærstu málunum þá er ekkert til sem heitir pólitískur ómöguleiki. Þau sem þannig tala þurfa einfaldlega að finna sér eitthvað annað að gera.

Ágætu landsmenn. Við sökum ríkisstjórnina ekki um að boða töfralausnir en við gagnrýnum hana fyrir fimm ára kyrrstöðu. Við þurfum ríkisstjórn sem stígur stór skref til framtíðar með frjálslyndi, jafnrétti og almannahagsmuni að leiðarljósi. En fyrst og síðast þurfum við ríkisstjórn sem eyðir ekki dýrmætum tíma í innbyrðisátök og innanmein, ríkisstjórn sem rýfur kyrrstöðuna, ríkisstjórn sem eykur samstarf og samstöðu með öðrum þjóðum, ríkisstjórn sem býður ekki upp á sömu þreyttu lausnirnar við þekktum og endurteknum vanda dag eftir dag, ár eftir ár og vonast eftir annarri niðurstöðu.