153. löggjafarþing — 2. fundur,  14. sept. 2022.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[20:55]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S):

Herra forseti. Góðir landsmenn. Það er stundum eins og við trúum því að sumir hlutir gerist ekki, jafnvel þeir sem við vitum að eru ekki óhagganlegir. Ég held við séum t.d. öll dálítið slegin yfir því að Elísabet drottning hafi í alvöru fallið frá. Hvað sem fólki finnst um konunga- og drottningaveldi þá misstum við eina sterkustu tengingu samtímans við 20. öldina og uppruna nútímans sem við búum við. En við misstum líka manneskju sem gerði sér ríka grein fyrir ábyrgð þeirra sem fara með völd, mikilvægi þess að láta yfirvegun ráða för og að vera stór í hlutverki sínu. Við höfum verið minnt á það fullmikið síðustu örfá ár að heimsmyndin er ekki óhagganleg enda sýnir ný skýrsla á vegum Sameinuðu þjóðanna að lífsgæði á heimsvísu hafa versnað í fyrsta sinn í þrjá áratugi. Við þekkjum fyrirsagnirnar sem hafa dunið á okkur: Heimsfaraldur. Stríð. Loftslagsvá. Í téðri skýrslu skipar Ísland sér í þriðja sæti á eftir Sviss og Noregi á lista yfir mestu lífsgæði í heiminum. Það á ekki að koma á óvart. Við höfum í mörgu verið forsjál og spilað skynsamlega úr þeim tækifærum sem okkar ágæta land hefur gefið okkur. Hér er enginn orkukreppa, svo að segja ekkert atvinnuleysi, hæstu laun, kaupmáttur og jöfnuður sem fyrirfinnast á byggðu bóli, menntun fyrir alla. Eiginlegar milliríkjadeilur okkar eru um súkkulaðihúðaðan lakkrís. Það er til mikils að vinna að við höldum ekki að sú staða haggist ekki, sama hvað.

Þótt við séum á langflesta mælikvarða lánsöm er sjálfsagt að hafa strúktúr samfélagsins í stöðugri skoðun, sjálfsagt að skoða hvernig gæðunum er skipt, í hvað þau fara og hvernig við getum best hjálpað þeim sem þess þurfa. En við getum það ekki án þess að muna hvaðan lífsgæðin koma. Þar á ég ekki við óljósar hugmyndir um að styrkja tekjustofnana sem á mannamáli er einfaldlega enn ein skattahækkunarhugmyndin. Nei, velsæld verður ekki til nema með samspili samkeppnishæfs atvinnulífs þar sem hugmyndir og nýsköpun þrífast án þess að allt sé kæft með reglufargani eða tekið jafnóðum og það verður til.

Hlutverk okkar hér er líka að missa ekki sjónar á því á hverjum tíma hvað er raunverulega mikilvægt og hvað er raunverulega stórt. Á þessum þingvetri mætti af mörgu nefna orkuöflun í þágu loftslagsmarkmiða, heilbrigðisþjónustu, varnarsamstarf í nýrri og hættulegri heimsmynd, að verja og viðhalda stöðu heimilanna í verðbólguógn með lausa kjarasamninga. Í öllum þeim úrlausnarefnum mun skipta öllu máli að við höldum okkur við lögmál raunheima en villumst ekki í skýjaborgum.

Góðir landsmenn. Því miður eru víst ekki allir sammála mér um það en ég hef þá bjargföstu trú að lífsgæði okkar verði aldrei fullkomnuð nema við pössum upp á frelsi okkar. Þar er ég aðallega að meina tvennt. Annars vegar frelsi sem felst í að veita valdhöfum gagnrýnið aðhald, því að þó við séum svo heppin að valdhafar okkar séu frekar viðkunnanlegir og virðast meina vel þá er grundvallarforsenda í frjálsu samfélagi að lagareglur okkar séu alltaf hugsaðar út frá því hvernig við myndum vilja hafa þær ef vont fólk væri við völd. Hins vegar frelsi þar sem fólki er treyst til að bera ábyrgð á tilveru sinni, svo lengi sem það skaðar ekki aðra og það þá líka þó að ýmis ágæt sjónarmið, allt frá lýðheilsu til öryggis, mæli því mót. Það verður nefnilega alltaf hægt að finna fínar ástæður gegn frelsinu en ef þær fá alltaf að verða ofan á fer fyrir frelsinu eins og tertu sem allir ætluðu að fá sér smá sneið af þar til hún varð óvart alveg búin. Og þótt það sé merki um gott samfélag að taka frelsinu sem gefnu þá megum við ekki taka því sem gefnu.

Ágætu landsmenn. Drottningar deyja, það verða eldgos og stríð og við getum misst það sem við höfum ef við pössum okkur ekki, ef við missum sjónar á stóru myndinni. Við höfum því einfaldlega ekki efni á að eyða tíma í smáa umræðu þar sem staðreyndir og skoðanaskipti drukkna í upphrópunum flennifyrirsagna, heldur verðum við að hlusta á mismunandi sjónarmið, staðreyndir, miðla málum, forgangsraða. Þannig verða stjórnmál stór. Þá getum við líka treyst því að stórir hlutir geta gerst. — Ég þakka þeim er hlýddu.