153. löggjafarþing — 2. fundur,  14. sept. 2022.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[21:14]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Kæru landsmenn. Nú er nýr þingvetur hafinn með nýjum fyrirheitum sitjandi meiri hluta. Í fjárlagafrumvarpi ársins 2023, stefnuskrá ríkisstjórnarinnar, er eitt og annað gott að finna en það er þó augljóst að ríkisstjórnin fellur á prófinu þegar horft er til verðbólgunnar sem er í hæstu hæðum og markmiðsins að auka velferð í landinu. Við höfum allt frá árinu 2017 verið með ríkisstjórn sem er samsett af flokkum sem segjast ekki vilja vinna saman. Hugmyndafræðin er látin víkja fyrir löngun til setu við ríkisstjórnarborðið. Þau eru mætt til að koma í veg fyrir að ákveðnir hlutir gerist og viðurkenna það bara. Þetta eru skilaboðin til íslensku þjóðarinnar. Ljóst er að flokkarnir eru settir í fyrsta sæti meðan almenningur bíður eftir úrbótum.

Það hefur margt setið á hakanum síðastliðin fimm ár. Við sjáum það t.d. svo vel í heilbrigðiskerfinu, hvort sem við horfum á stöðuna í landsbyggðunum, á Landspítalann okkar eða á viðvarandi biðlista barnanna okkar eftir þjónustu. Ég get líka nefnt biðlistana sem eru eftir viðtalinu til að komast á biðlista, t.d. eftir liðskiptaaðgerðum. Ríkisstjórnin þráast við að semja við sjálfstætt starfandi aðila um að taka að sér slíkar aðgerðir. Með því er í raun verið að búa til tvöfalt heilbrigðiskerfi þar sem hinir efnameiri kaupa sér þjónustu hjá einkaaðila á meðan hinir halda áfram að húka á biðlista jafnvel svo árum skiptir. Því miður versnar staðan frekar en að batna og svör ríkisstjórnarinnar eru fá. Engin sátt virðist vera um rekstrarfyrirkomulag og þess vegna er best að gera ekki neitt.

Tölum svo um aðgerðir í sjávarútvegi. Mun þessi ríkisstjórn einhvern tímann bjóða þjóðinni það réttlæti sem hún kallar eftir? 77% þjóðarinnar kalla eftir markaðsleið í sjávarútvegi en ríkisstjórnin skipar starfshópa um málið og við vitum öll að það mun engu skila, í besta falli örlítilli hækkun veiðigjalds. En grundvallarbreytingin, þar sem tryggt verður í lögum að þjóðin eigi kvótann, samningar gerðir tímabundnir og fyrir hann skuli greiða markaðsgjald, verður ekki í tíð þessarar ríkisstjórnar.

Virðulegur forseti. Þessi ríkisstjórn er ekki ný í starfi og Viðreisn var farin að kalla eftir efnahagsaðgerðum löngu fyrir heimsfaraldur þegar farið var að kólna í hagkerfinu. Þá hefði verið rétti tíminn fyrir ríkið að keyra í gang framkvæmdir og opinberar fjárfestingar. Ríkisstjórnin fór því allt of seint af stað og er núna hálfnuð með verk eins og Reykjanesbrautina en hefur því miður ákveðið að stöðva þá framkvæmd núna rétt eina ferðina til að auka ekki á verðbólgu. Það er engu öðru um að kenna en seinagangi hjá þeim sjálfum.

Virðulegur forseti. Fyrir síðustu kosningar var ungu fólki talin trú um að lágvaxtaskeið væri hafið á Íslandi. Og hvað sjáum við? Evrópumet í vöxtum á óverðtryggðum lánum. Þau sem bitu á agnið í góðri trú sitja nú með hnút í maganum í hvert sinn sem seðlabankastjóri birtist í fjölmiðlum. Einhverra hluta vegna telur Seðlabankinn eðlilegt að koma í veg fyrir styrkingu krónunnar sem gæti haft í för með sér ábata fyrir almenning en lætur vera að koma í veg fyrir að gengi krónunnar veikist eins og það hefur verið að gera að undanförnu þrátt fyrir mikinn fjölda ferðamanna. Það eru alltaf íslenskur almenningur sem er látinn greiða kostnaðinn af ónýtum gjaldmiðli. Og gleymum ekki matarkörfunni sem hækkar og hækkar. Og það er ekki bara innflutta varan sem hækkar heldur hafa innlendar vörur hækka verulega og gera má ráð fyrir að þær hækki meira miðað við fram komið fjárlagafrumvarp. Þrátt fyrir hærra vöruverð batnar staða bænda ekki neitt. Hver er ástæðan fyrir því önnur en sú að kerfið virkar ekki, hvorki fyrir neytendur né bændur?

Það eru kjarasamningar fram undan og ríkisstjórnin gefur tóninn með því að vísitölutengja krónutöluhækkanir fjárlagafrumvarpsins. Það er gott innlegg inn í komandi kjarasamninga eða hitt þó heldur. Ég hef heldur ekki minnst á þær ósanngjörnu skerðingar sem viðgangast í almannatryggingakerfinu sem Sjálfstæðisflokkurinn lofaði að leiðrétta árið 2013. Einhver dráttur virðist hafa orðið á því loforði.

Virðulegur forseti. Kæru landsmenn. Við þurfum að gera verulegar kerfisbreytingar til þess að þessu landi verði stjórnað með hagsmuni alls almennings í huga. Við þurfum frjálslynd viðhorf í Stjórnarráðið, viðhorf fólks sem horfir til framtíðar en ekki fortíðar, fólk sem mætir til að vinna að breytingum en ekki til að viðhalda stöðlum. Við þurfum Viðreisn í ríkisstjórn.