Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[09:27]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Pólitík mín og Pírata er tiltölulega auðveld hvað þetta varðar. Í stefnuræðu í gær var fjallað um gagnrýni á stjórnvöld og hversu nauðsynleg hún væri og hversu nauðsynlegt væri að halda henni heilbrigðri, sérstaklega ef vond stjórnvöld væru við lýði. Hæstv. fjármálaráðherra sagði að það kæmi engum á óvart að Pírötum fyndist þetta fjárlagafrumvarp slæmt. Mig langar til að spyrja út í nákvæmlega það, ástæðurnar fyrir því að okkur finnst þetta vera slæmt fjárlagafrumvarp. Í stefnuræðunni í gær kom fram hjá hæstv. heilbrigðisráðherra að það væri ekki aðhald í sjúkrahúsaþjónustu en það er það sem stendur í kaflanum um sjúkrahúsþjónustu, aðhald upp á 4 milljarða og 142 milljónir, það stendur skýrum stöfum. Tölurnar passa allar í því hversu mikil fjárheimild var til sjúkrahúsþjónustu og hversu mikil fjárheimildin er á næsta ári til sjúkrahúsþjónustu. Það þarf þessa 4 milljarða í mínus til að tölurnar passi. En það er ekki fjallað neitt rosalega nákvæmlega um það í texta greinargerðarinnar. Þar er fjallað um að sérhæfð sjúkrahúsþjónusta sé með 4 milljóna, ekki milljarða, kr. aðhaldskröfu. Almenn sjúkrahúsþjónusta — það er ekki talað neitt um það sem vantar upp á, hina rúmu 4 milljarða kr., og heldur ekki í erlendri sjúkrahúsþjónustu. Mig langar til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Er fjármálaráðherra að gera aðhaldskröfu á sjúkrahús?