Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[09:50]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi það hvort ég sé staddur hægra eða vinstra megin í pólitík, þá get ég sagt að ég hef akkúrat ekkert á móti borgaralegum gildum og ég styð frjálst markaðshagkerfi og ég styð að öflug verðmætasköpun sé í landinu í þessu frjálsa markaðshagkerfi sem við búum til. En það þýðir að það á að vera samkeppni á bankamarkaði. Það er í sjálfu sér ekkert erfitt að hagnast á bankastarfsemi á góðum tímum, en þetta snýst um að það sé skattur á bankana vegna þess að þeir skila stórkostlegum hagnaði vegna samkeppnisleysis. Það er líka spurning um hvernig eigi að slá á verðbólguna og það er hægt að gera það með sköttum.

En spurningin mín var: Hvernig stendur á því að útgjöld til velferðarmála halda ekki í við verðbólgu? Það var spurningin. Það er nefnilega stóra málið í velferðarsamfélagi, jafn litlu samfélagi eins og við búum í. Það er grundvallaratriði að við sjáum um þá sem lægst eru settir til að halda sátt í samfélaginu. Það er grundvallaratriði í þessu. Það að ég sé einhver kommúnisti eða sósíalisti, það er einfaldlega ekki rétt. Þetta er bara spurning um það hvers konar samfélagi við viljum búa í, sem er gríðarlega auðugt samfélag og eitt af ríkustu samfélögum heims.

En mig langar að spyrja hæstv. ráðherra að einu. Ef við lítum aðeins á endurhæfingarþjónustu í frumvarpinu kemur fram: Fjárheimild til málaflokksins lækkar um 198 millj. kr. vegna tímabundinna framlaga til SÁÁ, Samhjálpar og til vinnu gegn fíknisjúkdómum sem Alþingi veitti í eitt ár. Af öllu, hvers vegna stendur til að herða sultarólina þegar kemur að samtökum sem veita aðstoð til þeirra sem standa höllustum fæti í okkar samfélagi? Og ég vil bæta við þessa spurningu: Hvernig stendur á því að fjárframlög til Alzheimersamtakanna séu felld niður? Það sýnir svolítið hvernig heilbrigðisþjónustan er rekin í landinu. Hún er mikið til rekin af áhugamannasamtökum eins og SÁÁ, Alzheimersamtökunum og Samhjálp. Ríkið er ekki að gera þetta. Það er drifkrafturinn í íslensku samfélagi sem keyrir áfram velferðarkerfið að mörgu leyti og það er verið að fella niður stuðning ríkisins, eins og þessar tæpu 200 milljónir.