Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[09:54]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Byrjum bara á stóru myndinni. Hér reið yfir Covid-faraldur eins og menn þekkja og viðbrögð stjórnvalda og Alþingis við því voru að það þyrfti að setja verulegt fjármagn í að bregðast við áhrifum. Við tókum vel í allar tillögur ríkisstjórnarinnar um það. Það voru haldnir ítrekaðir fundir, blaðamannafundir og glærusýningar, til þess í raun að státa sig af því hvað ríkisstjórnin væri að setja mikla peninga í að bregðast við þessu ástandi, en það væri nauðsynlegt og það væri tímabundið. Við þyrftum að komast í gegnum þetta og þá gætum við byrjað að vinna niður þær skuldir sem bættust við. En hvað hefur gerst síðan? Á þessu ári, 2022, þegar faraldurinn er að mestu liðinn hjá eða áhrif hans a.m.k. efnahagslega, er gert ráð fyrir örlítilli lækkun á útgjöldum, örlítilli. Samt svipað og var Covid-árið 2021. Nú kynnir ríkisstjórnin fjárlagafrumvarp um að auka bara útgjöldin til mikilla muna, þau verði miklu meiri en Covid-árið 2021.

Hvernig má þetta vera, hæstv. fjármálaráðherra? Hvernig er þetta hægt? Bjó Covid-ástandið og þau miklu auknu útgjöld sem því fylgdi bara til nýjan grunn í útgjöldum ríkissjóðs? 1.000 milljarða markið sem þessi ríkisstjórn fór yfir er bara ekki sýnilegt lengur, það er komið svo langt fram úr því og að því er virðist stefnt að því að fjarlægjast það meira og meira. Hvernig má það vera að þessi ríkisstjórn geti ekki annað en haldið áfram að auka útgjöld ríkisins, sama hvort það er þörf fyrir sérstakar ráðstafanir út af heimssögulegum atburðum eða bara einhverju öðru sem hæstv. fjármálaráðherra getur kannski upplýst okkur um hvað er?