Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[10:22]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta eru áhugaverðar umræður sem hér eiga sér stað og ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir hennar ræðu. Mig langar aðeins að velta upp möguleikum til að afla tekna og auka tekjur ríkissjóðs. Af því að hér hefur hvalreki verið nefndur svo mánuðum skiptir þá væri hugsanlegt að búa til auknar tekjur fyrir ríkissjóð í gegnum svokallaða hvalrekaskatta. Við heyrðum síðast í framkvæmdastjóra ESB, Ursulu von der Leyen, nefna slíka skatta á orkufyrirtæki, að horfa þyrfti til þess að orkufyrirtæki í Evrópu hefðu einhvern hvalrekahagnað vegna ástandsins í Úkraínu og það hefur væntanlega líka áhrif á okkur.

Ég hef heyrt hv. þingmann nefna að við séum í innviðaskuld, það þurfi mikla uppbyggingu innviða. Ég nefndi nú Reykjanesbrautina í ræðu í gær, að hún hafi orðið út undan, hafi verið skorin í burtu í einu vetfangi og við þekkjum hjúkrunarheimilin. Það er ýmislegt sem hægt væri að nýta fjármuni í. Mig langar að spyrja hv. þingmann að því hvaða tækifæri hún sjái, hversu háar upphæðir við gætum verið að sjá með því að leggja á þessa svokölluðu hvalrekaskatta. Ætlum við að setja þá í auðlindagjaldið? Ætlum við að setja þá í bankaskattinn eða hvað hefur Samfylkingin hugsað sér í þessum efnum?