Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[10:31]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Íslenskt hagkerfi stendur á margan hátt vel. Verðmætasköpun í landinu er nokkuð góð. Ferðamenn hafa streymt til landsins eftir Covid og það hefur drifið hagkerfi landsins áfram ásamt því að aðrar atvinnugreinar hafa komið vel undan heimsfaraldrinum. Grundvöllur þess er hið frjálsa markaðshagkerfi og vegna þess erum við meðal ríkustu þjóða heims. Það ber að þakka fyrir. Vegna þess sem kom fram áðan, þegar nefnt var að Flokkur fólksins vill auka veiðileyfagjald og koma á bankaskatti, þá er það ekki spurning um kommúnisma eða sósíalisma. Hérna er bara verið að tala um hvers konar tekjumódel ríkissjóður vill hafa. Það er ekki merki um öfund eða neitt slíkt. Ég get tekið dæmi. Í nýju fjárlagafrumvarpi á að auka skattaálögur á rafbíla sem eru grundvöllurinn að orkuskiptum þjóðarinnar. Er það merki um öfund gagnvart þeim sem ætla að kaupa sér rafbíla eða ekki? Auðvitað ekki. Þetta er spurning um hvers konar tekjumódel við höfum og í núverandi tekjumódeli ríkissjóðs hallar á hina fátækustu, þar hallar á millitekjufólk og þá sem lægra eru settir í samfélaginu og ekki síst öryrkja, aldraðra og lágtekjufólk. Það er rétt sem hefur komið hér fram að þeir sem eru hátekjufólk eru engir snillingar eða eitthvað betri en aðrir, þeir eiga að borga réttlátan skerf sinn til samfélagsins. Það er ekki hægt og maður heyrir á hæstv. fjármálaráðherra að hér er verið að standa einhvers konar vörð gagnvart efstu lögum samfélagsins. Það er það sem þetta snýst um. Okkar tillögur snúast hins vegar um réttlátt samfélag og ekkert annað og alls ekki einhvern sósíalisma eða kommúnisma. Ef það er einhver sem ætti að gæta hagsmuna ríkissjóðs þá er það hæstv. fjármálaráðherra, það er hann sem er „Skattmann“ í landinu, það er hann sem á að sjá til þess að ríkissjóður sé rétt fjármagnaður og vel fjármagnaður.

Virðulegur forseti. Við fjárlagaumræðu síðasta árs kom fram að eftir Covid stóð ríkissjóður betur sem nam um 65 milljörðum en það var meira en spáð var. Það breytir því ekki að margt í atvinnulífi þjóðarinnar er ekki sem skyldi. Ég vil þar nefna helsta atvinnuveg þjóðarinnar, sjávarútveginn. Strandveiðar voru stöðvaðar 21. júlí síðastliðinn eða nánast á miðju veiðitímabili. Vilji Alþingis á síðasta kjörtímabili stóð hins vegar til þess að tryggja 48 daga til veiða yfir sumarmánuðina. Við það var ekki staðið. Atvinnufrelsi var því skert þegar kom að þessari mikilvægu atvinnugrein innan sjávarútvegsins og á landsbyggðinni. Það hefur haft mikil áhrif á atvinnulíf og verðmætasköpun í hinum dreifðu sjávarbyggðum. Þetta sýnir að verðmætasköpun í atvinnulífi þjóðarinnar er misjöfn eftir landshlutum. Það ber að jafna. Og það er alveg hárrétt sem hefur komið hér fram; grundvöllurinn að jafnri atvinnusköpun og jafnri verðmætasköpun í landinu eru innviðirnir. Við verðum að fara að gera stórátak í innviðauppbyggingu á landsbyggðinni, ekki síst vegagerð og gangagerð og öðrum innviðum. Það á ekki að vera valkostur þeirra sem vilja búa úti á landi að þeir séu að velja að búa við verri lífskjör en hér á höfuðborgarsvæðinu. Það er alger grundvallarskylda að það séu jöfn lífsskilyrði hvar sem fólk býr á landinu.

Fjármálaráðherra státar sig af því að ríkisstjórnin ætli að hækka fjárhæðir almannatrygginga um heil 6% á sama tíma og verðbólga mælist tæplega 10%. Það er kannski rétt að minna hæstv. fjármálaráðherra á lögbundnar skyldur ríkisins til að tryggja að fjárhæðir almannatrygginga fylgi launaþróun, þó þannig að þær hækki ávallt a.m.k. til samræmis við verðlag. Þetta stendur í 69. gr. laga um almannatryggingar. Hækkun almannatryggingabóta um 3% í sumar var ekki örlætisgerningur heldur nauðsynleg leiðrétting vegna þess að fjárlögin sem Alþingi samþykkti um síðustu jól tryggðu engan veginn að lífeyrir almannatrygginga myndi halda í við verðlag. 6% viðbót nú um næstu áramót er rétt svo lágmark til að halda í við verðlagsþróun samkvæmt hógværustu spám um verðlagsþróun. Ég get tekið fram að núverandi spá segir 6,7%, en ekki 6%. Það sem kemur fram í fjárlagafrumvarpinu um að það sé 9% hækkun er tvítalning á 3% sem komu í vor. Það er ekki verið að hækka almannatryggingar um 3% um áramótin líka. Þá er vert að minnast á það að vegna þess hve lág skattleysismörk eru og hversu miklir neysluskattar eru settir á fólk án tillits til efnahags þá þarf fátækasta fólkið, fólkið sem á að fá þessi 6% árlegu uppfærslu, líklega að greiða af henni rúmlega 30% í tekjuskatt og í kjölfarið 11–24% virðisaukaskatt. Það er því ólíklegt að ráðstöfunartekjur lífeyrisþega hækki um 6% um næstu áramót. Líklega verður raunaukningin ekki nema helmingur af því. Hvernig ætlar fjármálaráðherra að segja að það sé óréttlátt að leggja til að velferðarþættirnir standist verðbólguþróunina í samfélaginu? Þetta er dæmi um það að skattkerfið er óréttlát, skattbyrði á lægri tekjuhópa samfélagsins, aldraðra og öryrkja, eru einfaldlega meiri. Þá er ég ekki farinn að tala um tekjuskerðingarnar ef öryrkjar og aldraðir vilja afla sér eigin tekna, sem er algerlega sérmálefni.

Þá hafa talsmenn ríkisstjórnar ekki minnst einu orði á kjaragliðnun almannatrygginga í þessari umræðu. Undanfarinn áratug hafa kjör lífeyrisþega almannatrygginga versnað þegar horft er til launaþróunar sem nemur um þriðjungi, rúmlega 30%. Við verðum að leiðrétta þessa kjaragliðnun. Þegar verðbólgan fer af stað, eins og nú hefur skeð, bitnar hún ávallt á þeim verst settu og þeim sem minnst mega sín í samfélaginu. Það er skylda okkar hér á Alþingi að tryggja öllum mannsæmandi kjör og sjá til þess að allir geti lifað með reisn. Á tímum sem þessum ber okkur að leggja í sérstakar aðgerðir til að koma í veg fyrir allra hörðustu áhrif verðbólgu á fátækt fólk, aldraða og öryrkja og þá sem eru að greiða af verðtryggðum lánum. Það er algjört grundvallaratriði. Um það eiga aðgerðir ríkisstjórnarinnar að snúast, fyrst og fremst það. Það þarf líka að tryggja tekjuöflun hjá þeim herðum sem geta borið það. Það er enginn hér inni sem verðbólga mun hafa alvarleg áhrif á. Við erum hér bara einfaldlega öll í þeim tekjuflokki að það gerist ekki. Það eru aðrir hópar í samfélaginu sem við þurfum að tryggja að geti staðið þessa verðbólgu af sér. En fjárlagafrumvarp fjármálaráðherra skautar algerlega fram hjá þessum hópum og það er til skammar.

Mig langar aðeins að fara ofan í helstu liði fjárlagafrumvarpsins. Ég hef þegar minnst á bætur til almannatrygginga til öryrkja og aldraðra. Þar er boðað að hækkunin verði 9% en það er ekki rétt, það er bara 6% eins og ég sagði áðan. Ég vil taka fram að húsaleigubætur eru einnig tvítaldar á svipaðan hátt. Kaupmáttur þessara bóta mun því rýrna þegar líður á næsta ár í þeirri verðbólgu sem þá verður um 6,7% samkvæmt spá Seðlabankans. Það er mjög líklegt að verðbólgan verði hærri. Annað í þessu er helsti liðurinn, drifkrafturinn í verðbólgunni, sem er húsnæðisliðurinn, það er þessi innanlandsdrifkraftur. Það er ekki verið að taka nægilega á honum. Það þarf að auka framboðið á húsnæði. Það er það sem þetta snýst allt um, ekki endilega að hækka vexti. Raunverulega eru þessar aðhaldsaðgerðir ríkisstjórnarinnar ekki að taka á verðbólgunni með nægilega markvissum hætti. Verðbólgan er út af stríðinu í Úkraínu, aðallega út af orkumálunum í Evrópu og við erum svo heppin að búa við gríðarlega góða orkugjafa frá náttúrunnar hendi sem eru fallvötnin og heita vatnið okkar og það er það sem hefur í raun slegið á verðbólguna. Vissulega hefur bensínverð lækkað líka og það hefur líka slegið á verðbólguna en ekki aðgerðir Seðlabankans, ekki aðgerðir stjórnvalda. Það verður ekki séð að þessi aðhaldskrafa í fjárlögunum slái á verðbólguna með neinum hætti. Ef eitthvað er þá hefði átt að hækka fjármagnstekjuskattinn, hækka veiðileyfagjaldið og hækka bankaskattinn. Það hefði slegið á verðbólguna vegna þess að þar eru peningarnir sem keyra upp þenslu, þar eru fjárfestarnir og það eru þeir sem munu keyra verðbólguna, ekki fátæka fólkið eða útgjöld til þeirra á nokkurn einasta hátt.

Annar þáttur er skóla- og heilbrigðismál. Þar mun verða um umtalsverða lækkun á fjárlögum að ræða. Sjúkrahúsþjónusta fær krónutöluhækkun upp á mínus 1% sem þýðir verulega raunlækkun fjárframlaga að teknu tilliti til verðbólgu. Staðan á Landspítalanum og öðrum sjúkrahúsum hefur líklega farið fram hjá smiðum þessa fjárlagafrumvarps. Hjúkrunar- og endurhæfingarþjónusta fær einnig högg. Umtalsverður sparnaður er á útgjöldum vegna lyfja og lækningavara en það er eðlilegt að þar komi sparnaður eftir að Covid er að mestu gengið yfir. (Forseti hringir.)

Að lokum vil ég minnast aðeins á barnabæturnar. Þær fá sömu krónutölu og árið 2023, sömu krónutölu og árið 2023 í síðasta fjárlagafrumvarpi. (Forseti hringir.)

Ég tel að þetta fjárlagafrumvarp þarfnist verulegrar endurskoðunar í fjárlaganefnd og (Forseti hringir.) ég hlakka til þeirrar vinnu og tel að við getum bætt þetta frumvarp verulega með tillögum til bóta.

(Forseti (DME): Ég bið hv. þingmenn að virða ræðutímann.)