Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[10:42]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Aðeins um fjármagnstekjuskattinn. Við erum að tala hérna um skatt sem fyrir tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur var 10% og hafði verið 10% í þó nokkuð mörg ár. Hann var hækkaður í 20%. Þessi ríkisstjórn hækkaði skattinn í 22%. Þegar við skoðum þennan skatt í samanburði við Norðurlöndin þá sjáum við mjög vel, þegar tekið er tillit til allra frádráttarliða og annarra sérreglna sem gilda á Norðurlöndunum og síðan frítekjumarkið hérna innan lands hjá okkur, að skatturinn skilar á margan hátt sambærilegri álagningu á fjármagnstekjur eins og gildir á Norðurlöndum í dag. Þess vegna er mér algerlega fyrirmunað að skilja þegar rætt er um þennan skatt, sem hefur verið hækkaður meira en tvöfalt á undanförnum rúmum áratug, hvers vegna talað er um að það sé mikil þörf á að hækka hann enn frekar. Menn virðast ekki taka eftir því að þessi skattur, sem ég held fram að sé sanngjarn og eðlilegur og kallist ágætlega á við það sem gerist í samkeppnislöndum okkar, skilar ríkissjóði verulegum tekjum þegar vel gengur.

Ég ætla að lýsa mig ósammála því að það hefði þess vegna verið góð hugmynd að hækka fjármagnstekjuskattinn, veiðigjaldið og bankaskatta, að það hefði verið til þess fallið að lækka verðbólgu.

Virðulegur forseti. Það er m.a. einkaneyslan, einkaneysla almennings í landinu, sem hefur notið mjög góðs af launahækkunum, stöðugu verðlagi og vaxtalækkunum undanfarinna ára, sem er að keyra upp verðbólgu. Húsnæðismarkaðurinn er umræddur, hann er alveg sérstakur liður og erlend áhrif eru sömuleiðis mikil í verðbólgu. (Forseti hringir.) En það sem hefði gerst ef menn hefðu tekið meira af útgerðinni, meira út úr fjármálakerfinu, er að menn hefðu fengið minni fjárfestingu og menn hefðu séð hærri gjaldskrár í fjármálakerfinu.