Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[10:44]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir andsvarið. Ástæður verðbólgunnar í dag eru áhrif af stríðinu í Úkraínu. Það eru truflanir í svokölluðum aðfangalínum eða framboðskeðjum í heiminum. Það má líka halda því fram að seðlaprentun á Covid-tímabilinu eða innspýting ríkissjóðs hafi valdið verðbólgu. Og svo er það húsnæðisliðurinn. Stýrivaxtahækkanir hafa áhrif á innspýtinguna út af Covid. Allir aðrir þættir eru utanaðkomandi áhrif, stríðið í Úkraínu, og þar er fyrst og fremst orkuverðhækkunin erlendis. Húsnæðisliðurinn er annað. Þessar skattahækkanir snúast um tekjumódelið. Hversu mikið ætlar ríkissjóður að taka af helstu auðlind þjóðarinnar, þar sem ákveðnum aðilum er veitt leyfi til að veiða, í svokallaða auðlindarentu? Og þá er spurning hversu hátt veiðileyfagjaldið eigi vera.

Annað varðandi bankaskattinn. Bankaskatturinn er af því það er ekki samkeppni. Ríkið hefur ekki haft eigendastefnu um að koma á samkeppni. Þeir eru með tvo af þremur bönkum þjóðarinnar. Það væri minnsta mál í heimi að segja við ríkisbankana: Heyrðu, við viljum að þið farið í alvörusamkeppni. Við viljum að þið lækkið vextina og náið í fleiri kúnna gagnvart einkabankanum. Við viljum að þið búið til alvörusamkeppnisumhverfi. Um það snýst málið.

En þegar kemur að þessu fjárlagafrumvarpi er augljóst mál að það þarf að auka í varðandi aldraða og öryrkja, varðandi ákveðin velferðarmál. Það endilega eru ekki stórar tölur. Það snýst um að halda í við verðbólguna og leiðrétta gagnvart fátækasta hlutanum sem eru aldraðir og öryrkjar. Um það snýst málið raunverulega, um það snúast þessi fjárlög. Að halda þessu fram um fjármagnstekjuskattinn á stóreignafólk — hann er áfram óvenjulega lágur (Forseti hringir.) miðað við skattlagningu á atvinnutekjur og lífeyri. Líka miðað við fjármagnstekjuskatt í nágrannaríkjunum. Ég skora á hæstv. fjármálaráðherra að koma með tölur um fjármagnstekjuskatt á Íslandi miðað við önnur Norðurlönd. Um það snýst málið.