Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[10:49]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra aftur fyrir andsvarið. Varðandi fjármagnstekjuskattinn er ég algerlega sammála því að of hár fjármagnstekjuskattur hefur áhrif á viljann til fjárfestinga. Það er alveg hárrétt. En ef við horfum á veiðileyfagjöldin og áhrif þess hversu lá veiðileyfagjöldin eru þá er það sem er að gerast í íslensku samfélagi að kvótaeigendur kaupa upp fyrirtæki út um allar koppagrundir. Þeir eru að ryðja öðrum atvinnurekendum út, af því að þeir geta boðið hærra í fyrirtæki, hvort sem það er Gunnars majónes eða önnur fyrirtæki. Það er stórhættulegt. Þess vegna þarf ríkið að taka pening út úr þessari grein, til að geta byggt upp aðrar greinar. Það er mjög mikilvægt. Svo þurfum við líka að efla fjárfestingar inni á tæknisviðinu, í upplýsingabyltingunni, taka þátt í henni af fullum krafti.

Aðeins varðandi verðbólguna. Ég tel að aðgerðir stjórnvalda muni litlu máli skipta þegar litið er til þeirra. Það eru hins vegar aðgerðir í þessu fjárlagafrumvarpi sem munu auka verðbólgu. Hvaða aðgerðir eru það? Jú, það eru álögur á rekstur fólksbifreiða. Það mun hækka verðbólguna. Álögur á aðrar neysluvörur, t.d. áfengi, munu hækka verðbólguna. Svo eru það rafbílarnir, orkuskiptin. Hæstv. fjármálaráðherra lauk máli sínu með því að minnast á orkuskiptin, að hærri fjármagnstekjuskattur myndi takmarka orkuskiptin. Ef eitthvað dregur úr orkuskiptum eru það álögur á rafbílana, 5 milljarðar, það mun draga úr orkuskiptum. Ég las stjórnarsáttmálann. Þar ætlar Ísland að vera best í heimi í orkuskiptum og loftslagsmálum og öllu sem lýtur að umhverfinu. Ég get bara sagt þetta: Ísland mun ekki skipta neinu máli þegar kemur að loftslagsbreytingum í heiminum, (BjG: Hvað er þetta?) þótt enginn myndi skila neinum kolum. Við erum einfaldlega það smá. (BjG: Ekki segja þetta, Eyjólfur.) Það eru Kína, Bandaríkin sem eru þar undir, stóru þjóðirnar. 370.000 manna samfélag mun ekki gera það. Við eigum hins vegar að taka þátt í þessu og við eigum að hafa hvata (Gripið fram í.) til orkuskipta. (Forseti hringir.) — Já, hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir. Hvernig stendur á því að flokkur eins og Vinstri græn (Forseti hringir.) samþykkir auknar álögur á orkuskiptin með því að auka álögur (Forseti hringir.) á rafbíla? Hvernig stendur á því? Mér þætti gaman að fá svar við því. Því miður er andsvörum lokið en ég mun spyrja hæstv. fjármálaráðherra og formann fjárlaganefndar um það á nefndarfundum.