Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[10:52]
Horfa

Stefán Vagn Stefánsson (F):

Virðulegur forseti. Við ræðum í dag fjárlög ársins 2023 og ljóst er að þau bera merki um þá umbrotatíma undanfarinna ára sem gengið hafa yfir heimsbyggðina og þar með talið Ísland. Covid-19 hefur haft mikil efnahagsleg áhrif hér á landi og þess gætir enn í einhverjum mæli í þessu frumvarpi þó að þær sértæku aðgerðir sem gripið var til til varnar heimilum og fyrirtækjum í landinu séu yfirstaðnar og ekki þörf á slíkum aðgerðum lengur. En viðspyrna ferðaþjónustunnar á þessu ári var öflugri en gert var ráð fyrir.

Stríðsrekstur Rússa í Úkraínu hefur haft gríðarleg efnahagsleg áhrif hér á landi og í heiminum öllum. Verðlag hefur hækkað hér á landi, sér í lagi á innfluttum vörum sem veldur innflutningi á verðbólgu, m.a. frá Evrópu.

Fjármögnun heilbrigðiskerfisins er mikið til umræðu sem og fjármagn til velferðarmála. Því ber að halda til haga að 6 af hverjum 10 kr. ríkisins fara í heilbrigðis- og velferðarmál. Þá eru eftir 40% fyrir allt annað. Útgjöld ríkissjóðs til heilbrigðismála í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2023 eru 31% og til félags-, húsnæðis- og tryggingamála 27%. Saman taka þessir liðir því um 58% af heildarútgjöldum ríkisins samkvæmt frumvarpinu. Við viljum öflugt heilbrigðis- og velferðarkerfi og gerum vel þar, en við þurfum að gera enn betur. Af því leiðir að þessir málaflokkar taka til sín stóran hluta af kökunni og það sem eftir er dreifist milli þeirra fjölmörgu málaflokka sem eftir eru.

Það er ekki gott þegar spár eða áætlanir ganga ekki eftir en því ber engu að síður að fagna að þær spár og áætlanir sem gerðar voru og hafðar voru til grundvallar í fjárhagsáætlanagerð 2021 hafa ekki gengið eftir og staða ríkissjóðs er um 100 milljörðum kr. betri en gert hafði verið ráð fyrir. Gert er ráð fyrir að afkoma ríkisins verði neikvæð sem nemur um 89 milljörðum kr. á árinu 2023, sem er eins og áður sagði betri niðurstaða en áætlanir sögðu til um. Því ber að fagna.

Skuldir ríkisins hafa aukist verulega á Covid-tímum og gerðu áætlanir ráð fyrir að þær myndu geta farið yfir 50% á árinu 2023. Vegna aukningar á tekjum og öflugs hagvaxtar í hagkerfinu hefur náðst að sporna við þeirri þróun sem spár gerðu ráð fyrir og er skuldastaða ríkissjóðs nú samkvæmt því frumvarpi sem hér er lagt fram 33% og hefur batnað til muna.

Útlit er fyrir að hagvöxtur á Íslandi verði einn sá mesti innan OECD og spilar fjöldi erlendra ferðamanna þar stærsta þáttinn, enda eru þeir nú orðnir jafn margir hér á landi og þeir voru fyrir Covid-19 faraldurinn. Ef horfur verða áfram jákvæðar og haldið er vel á spilunum standa vonir til þess að hægt verði að stöðva lækkun skulda hins opinbera í hlutfalli af vergri landsframleiðslu eigi síðar en 2026.

Verðbólgan hefur rokið upp á Íslandi á síðustu mánuðum og mælist nú 9,7%, sem er reyndar lækkun frá síðustu mælingu. Á Íslandi er verðbólga þó lág í alþjóðlegum samanburði en samkvæmt mælingum er verðbólga á Íslandi næstlægst í Evrópu og aðeins í Sviss þar sem verðbólga mælist minni. Það eru aðallega þrír þættir sem hafa áhrif á verðbólguna. Það er verðlag, launaþróun og einmitt fjárlög, sem við ræðum hér í dag. Markmiðið er og verður að vera að ná verðbólgunni niður og tryggja þannig að hún festist ekki í sessi, með því að verja lífskjör almennings í landinu. Vonir standa til að verðbólgan hafi náð hámarki sínu og sé nú á niðurleið en ljóst er hins vegar að utanaðkomandi þættir geta og munu spila þar inn í sem getur reynst erfitt fyrir okkur að bregðast við. Undirliggjandi verðbólga í ágúst er áhyggjuefni en kraftur þjóðarbúskaparins drífur hana áfram. Ef húsnæðisliðurinn væri tekinn út úr vísitölunni myndi verðbólgan hér á landi mælast um 7,5%, sem segir okkur að við verðum að fara varlega á komandi misserum og halda áfram af fullum krafti í okkar aðgerðum til að sporna við hækkun verðbólgunnar. Við þurfum að draga úr spennunni í hagkerfinu.

Í þessu fjárlagafrumvarpi er leitast við að halda áfram að verja viðkvæmustu hópana fyrir áhrifum verðbólgunnar með ýmsum aðgerðum. Má í því samhengi nefna að í maí voru bætur almannatrygginga hækkaðar um 3% umfram reglubundnar hækkanir, húsnæðisbætur hækkaðar um 10% sem og sérstakur barnabótaauki, 20.000 kr. með hverju barni til þeirra sem fá tekjutengdar barnabætur. Í júlí var svo ákveðið að minnka halla ríkissjóðs enn hraðar en stefnt var að til þess að draga úr þenslu og verðbólgu og minnka þannig þörfina fyrir hækkun vaxta. Umfang þessara aðgerða var um 30 milljarðar.

Við þurfum að halda áfram á þessari braut. Í fjárlagafrumvarpi ársins 2023 er gert ráð fyrir að hækka bætur almannatrygginga og viðmið tekjuskatts til að verja viðkvæmustu hópana og er hækkunin 9% milli áranna 2022 og 2023. Þessi breyting getur aukið ráðstöfunartekjur örorkulífeyrisþega um 9% á ári, eða um allt að 335.000 kr. á ársgrundvelli.

Hagvaxtarhorfur hér á landi eru mjög góðar í alþjóðlegu samhengi og spá Seðlabanka Íslands gerir ráð fyrir allt að 6% hagvexti á árinu 2023. Atvinnuleysi hefur farið minnkandi hér á landi á síðustu mánuðum og er nú komið undir meðaltal áranna frá 2020. Kaupmáttur hér er mikill í öllum samanburði og hafa ráðstöfunartekjur á hvern íbúa aukist um 60.000 kr. á mánuði frá upphafi ársins 2016. Kaupmáttur hefur því aukist um 22% á tímabilinu og hefur aukningin verið varin þrátt fyrir verðbólgu. Þess ber þó að geta að kaupmáttur fullvinnandi launafólks hefur aukist meira en hálaunafólks á tímabilinu auk þess sem lækkun tekjuskatts á árunum 2020 og 2021 jók ráðstöfunartekjur láglaunafólks mest.

Staða heimilanna er sterk þótt vissulega séu blikur á lofti. Eigið fé í eigin húsnæði hefur aukist verulega á síðastliðnu ári og er áætlað að meðaltalsaukning sé 9 millj. kr. Aukinn skattfrjáls húsnæðissparnaður fyrir fyrstu kaupendur ásamt því að geta ráðstafað tilgreindri séreign til kaupa á fyrstu fasteign, sem tekur gildi núna 1. janúar 2023, gagnast þeim tekjulægstu mest sem og þeim sem ekki hafa átt fasteign síðustu fimm ár.

Frá því að lögin um almennar íbúðir voru samþykkt árið 2016 hafa ríki og sveitarfélög úthlutað stofnframlögum fyrir um 3.100 íbúðir á viðráðanlegu leiguverði fyrir tekjulægri hópa. En áfram þarf að halda og innviðaráðherra hefur nefnt í því samhengi að setja markið á að byggðar verði allt að 20.000 íbúðir á næstu fimm árum, þar af 7.000 með aðkomu hins opinbera í formi fjölbreytts húsnæðisstuðnings, og allt að 35.000 á næstu tíu árum. Vinna er í gangi um endurskoðun á húsnæðisstuðningi og mun niðurstaða þeirrar vinnu koma inn í 2. umr. fjárlaga. Gert er ráð fyrir fjármagni til þessa verkefnis úr varasjóðnum. Í þeirri vinnu verði horft sérstaklega til þess hvernig hægt verði að auka framboð og jafna það yfir hagsveifluna.

Í þessari yfirferð hef ég reynt að horfa aðeins á stóru myndina, en sem fyrrverandi sveitarstjórnarfulltrúi langar mig hér að minnast á eitt málefni sem er sveitarfélögunum afar hugleikið, það er fjárhagsstaða vegna málaflokks fatlaðs fólks. Afar mikilvægt er að Alþingi líti ekki undan varðandi það gríðarlega stóra verkefni sem fjármögnun málefna fatlaðs fólks er og að sá halli, 9 milljarðar árið 2021, og áætlaður halli upp á 13 milljarða árið 2022 verði bættur að einhverju leyti fyrir sveitarfélögin og þjónustuþega þeirra. Rekstrarumhverfi málaflokksins er farið að hafa verulega íþyngjandi áhrif á rekstur sveitarfélaga landsins og er sennilega það verkefni sem hvað brýnast er að leysa að mati sveitarfélaga. Ég bind vonir við nýjan starfshóp sem hefur það að markmiði að finna leiðir til lausna á þessu verkefni og þar mega stjórnvöld ekki skorast undan sinni ábyrgð og skilja sveitarfélögin eftir með þetta verkefni í höndunum til framtíðar.

Virðulegur forseti. Þau fjárlög sem hér eru lögð fram til 1. umr. verða nú send þinginu til umfjöllunar og skoðunar. Margar spurningar hafa vaknað og munu vakna í meðförum þingsins, sem er gott. Við þurfum og eigum að skoða þetta frumvarp með gagnrýnum augum og venju samkvæmt mun frumvarpið taka einhverjum breytingum í meðförum þingsins. Hér er um að ræða grunnlög fyrir árið 2023. Því skiptir verulegu máli að vanda sig í meðförum og mikilvægt er að velta við öllum steinum í umfjöllun fjárlaganefndar og hér í þingsal á komandi misserum. Áskoranirnar eru miklar og mörg verkefni þurfa framgang.

Virðulegur forseti. Forgangsröðun verkefna er vandasamt verkefni og úthlutun takmarkaðra gæða sömuleiðis.

Ég vil að endingu óska þinginu velfarnaðar í umræðu sinni og afgreiðslu á fjárlögum ársins 2023. Það er ljóst að skoðanir eru skiptar um áherslur og forgangsröðun og hin ýmsu verkefni sem á borði ríkisins eru á hverjum tíma.