Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[11:11]
Horfa

Stefán Vagn Stefánsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Það er alveg rétt að talað er um það í þessu fjárlagafrumvarpi, ég man ekki hvernig það er orðrétt, að starfshópur sé að vinna varðandi húsnæðismálin sem muni skila tillögum fyrir 2. umr. fjárlaga. Ég held þetta sé orðað með þessum hætti, það er alla vega inntakið. Nú hefur hv. þingmaður verið töluvert lengur í fjárlaganefnd en ég og er hokinn af reynslu af störfum í þeirri nefnd og þekkir þetta ferli töluvert betur en sá sem hér stendur. Hins vegar er það alveg ljóst, og það er bara almennt, að eftir því sem tillögurnar koma seinna inn, því erfiðara verður að fá umsagnaraðila og skýrari mynd af þessu. Ég tek heils hugar undir það. En það breytir því ekki að í einhverjum tilfellum er hægt að stytta umsagnartíma. Það er hægt að kalla inn á fund til nefndarinnar þá hagaðila sem við teljum geta veitt bestu upplýsingar á hverjum tíma um þau mál sem við þurfum að þekkja. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að við getum, þegar þessar tillögur eru fram komnar, kallað inn þá aðila sem við viljum ræða við til að hafa þær upplýsingar eða skoðanir sem við teljum skipta máli og muni hjálpa okkur í afgreiðslu málsins í fjárlaganefnd. Ég held að það séu leiðir til að fá þessar upplýsingar inn í fjárlaganefnd. En ég tek hins vegar alveg undir það að auðvitað er betra að fá upplýsingarnar og samtalið sem fyrst en stundum eru málin bara þannig að það er ekki hægt. Þá verðum við að finna leiðir til að leysa það.