Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[11:18]
Horfa

Stefán Vagn Stefánsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Það hefur verið minn skilningur eftir að hafa verið að rýna þetta fjárlagafrumvarp sem við ræðum hér, að stóra línan, stóra markmiðið í því sé einmitt að ná niður verðbólgunni, það sé sameiginlegt verkefni okkar allra. Það er stóra verkefnið í þessu. Þær aðgerðir sem farið er í í þessu frumvarpi miða flestar að því að reyna að ná verðbólgunni niður vegna þess, eins og ég kom inn á í minni ræðu, að það er stóra verkefnið okkar. Það er hagsældarverkefni að ná þessari verðbólgu niður og tryggja að hún festist ekki hér í sessi, sem yrði skelfilegt fyrir íslensk heimili og íslensk fyrirtæki.

Fordæmi gagnvart sveitarfélögunum. Ég á erfitt með að átta mig á því hvað það er, hvað þetta mun þýða fyrir sveitarfélögin. Ég held að það sé bara mjög misjafnt eftir sveitarfélögum. Þau eru í mjög misjafnri stöðu. Þau eru mjög misjöfn. Á meðan ég sat og velti fyrir mér þessari fyrirspurn hv. þingmanns þá var niðurstaðan eiginlega sú að ég átta mig ekki á því hvað þetta mun þýða fyrir sveitarfélögin. Eflaust mun þetta þýða eitthvað fyrir einhver þeirra. Ég get ekki svarað betur en þetta, ég átta mig ekki á því.