Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[11:46]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það eru ekki nema örfáar vikur síðan að flokksráðsfundur Vinstri grænna krafðist þess að veiðigjöld yrðu hækkuð og skattbyrðin milli launatekna og fjármagnstekna yrði jöfnuð. Ég hef svona pínulítið á tilfinningunni að Vinstri græn hafi fylgst með því hvað virkar vel fyrir Framsóknarflokkinn, að leika þann leik að tala í raun eins og þau séu í stjórnarandstöðu en styðja svo skattapólitík og ríkisfjármálapólitík Bjarna Benediktssonar og ætli núna að prófa hið sama, vegna þess að rétt eftir þessar yfirlýsingar er lagt fram fjárlagafrumvarp þar sem ekkert í þessa veru er að finna. Hér er lágtekju- og millitekjufólkið látið taka á sig aukna skattbyrði. Og af því að hér talar hv. þingmaður um varðstöðu, um að verðbæta grunnþjónustuna o.s.frv., þá sjáum við nú aldeilis gjöldin verðbætt (Forseti hringir.) á lágtekju- og millitekjufólkið.

Ég vil spyrja hv. þingmann, vegna þess að það kom svo skýrt fram áðan þegar hv. þm. Kristrún Frostadóttir spurði fjármálaráðherra (Forseti hringir.) hvort honum hefði tekist að sannfæra Katrínu Jakobsdóttur (Forseti hringir.) og Lilju Alfreðsdóttur um skattapólitíkina sína: Hvort er hv. þingmaður sammála flokksráðsfundi Vinstri grænna og þeirri skattapólitík sem þar var (Forseti hringir.) boðuð eða þeirri skattapólitík sem birtist í þessu fjárlagafrumvarpi?