Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[12:00]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir andsvörin og umræðuna hér áðan. Hún sagði áðan varðandi fingraför Vinstri grænna á fjárlagafrumvarpinu að þau væru í mörgum eða allflestum málaflokkum. Hún fór ekki í smáatriði þar, inn í ákveðna málaflokka, en ég myndi gjarnan vilja óska eftir því að hún væri aðeins nákvæmari í svörum sínum og segði í hvaða málaflokkum þetta væri, hvort það væri í málaflokkum sem róttækur, femínískur vinstri flokkur berst fyrir, hag hinna illa settu í samfélaginu og sem hafa sætt misrétti. Í hvaða málaflokkum er þetta? Öryrkja og aldraðra? Er þetta í skólamálum, heilbrigðismálum, sjúkraþjónustu, lyfjamálum, húsnæðismálum, barnabótum? Hvar er þetta nákvæmlega? Ég hef ekki séð þetta.

Annað varðandi rafbílana. Ég veit að hv. þingmanni er mjög umhugað um loftslagsmálin. Ég get ekki séð annað en að þessar álögur á rafbíla sýni það raunverulega að íslenska ríkið ætli ekki að taka þátt í orkuskiptunum (Forseti hringir.) af fullum þunga. Það er verið að draga úr því (Forseti hringir.) að taka þátt í loftslagsmálum sem því nemur, upp á krónu.