Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[12:17]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Í fyrirspurn á hæstv. fjármálaráðherra hérna áðan benti ég á það sem er í rauninni meginstaðreynd þessa fjárlagafrumvarps, að enn er gert ráð fyrir að auka útgjöld ríkissjóðs þrátt fyrir að okkur hafi verið sagt á undanförnum árum á tímum Covid-faraldursins að sú útgjaldaaukning sem þá átti sér stað yrði aðeins tímabundin. Að loknu því tímabili tækju við ráðstafanir til að greiða niður þær skuldir sem þá höfðu safnast upp. Raunin virðist hins vegar vera sú að þessi skyndilega útgjaldaaukning vegna neyðarástands vegna heimsfaraldurs hafi myndað nýjan grunn í útgjöldum ríkisins sem halda bara áfram að þenjast út jafnt og þétt. Þegar ég spurði hæstv. fjármálaráðherra um þessa ráðgátu vísaði hann í skýrslu Kristínar Ólafsdóttur, sem er líklega ekki á sömu pólitísku línu og hæstv. ráðherra en látum það liggja á milli hluta því að það var ágætt að hann skyldi hafa það gagn til að glugga í um hvað væri að gerast hjá ríkisstjórninni í þessari stjórnlausu útgjaldaaukningu. Hæstv. ráðherra taldi að þetta væri líklega að miklu leyti vegna launahækkana en sleppti því þó að benda á að það óhjákvæmilega tengist þeim vexti sem verið hefur hjá hinu opinbera og hjá ríkinu á undanförnum árum með fjölgun stofnana. Enn heyrðum við tilkynningar um nýjar stofnanir í umræðum hér í gær og fjölgun starfsmanna.

Og eftir höfðinu dansa limirnir. Forsætisráðuneytið hefur í tíð þessarar ríkisstjórnar vaxið miklu meira en nokkurn tímann áður í sögunni þótt ekki sé gert ráð fyrir áframhaldandi vexti þar á sama hátt og áður, hugsanlega vegna þess að það er ekki til húsnæði til að koma fyrir öllum nýju aðstoðarmönnunum. Og talandi um aðstoðarmenn ráðherra og starfsfólk þessarar ríkisstjórnar, því fólki hefur fjölgað og er orðið miklu fleira en nokkurn tímann áður. Kerfið allt fylgir þessum tóni og vex.

En á sama tíma og ríkisstjórnin kynnir fjárlög sem eru enn í neyðarástandsstíl hvað útgjöldin varðar þá er ekki komið til móts við þá sem verða fyrir mestum áhrifum af þeirri neyð sem nú er kannski hvað mest aðkallandi sem er verðbólguþróunin. Þar bætir ríkisstjórnin rækilega í og gefur tóninn fyrir nýtt ár með hækkunum á öllum helstu gjöldum, þar með talið og eiginlega alveg sérstaklega gjöldum á samgöngur og eldsneyti með nýjum refsisköttum og hækkun þeirra sem fyrir voru á meðan annars staðar er litið til leiða til að draga úr áhrifum hinnar skyndilegu hækkunar á orkuverði. Þannig blasir það við að ríkisstjórnin ætlar að hækka mjög verulega kostnað við rafmagnsbifreiðar en segir okkur að það sé allt í lagi vegna þess að kostnaður á aðra hækki enn þá meira. Það verður enn þá dýrara að eiga og reka hefðbundinn, sumir myndu eflaust segja gamaldags bíl, en engu að síður er eru slíkar bifreiðar enn nauðsynlegar og ekki hvað síst á landsbyggðinni. Svoleiðis að á meðan útgjöldum er haldið í hæstu hæðum eru borgararnir skattpíndir í auknum mæli, m.a. á þeim sviðum þar sem síst skyldi, þar sem það hefur áhrif á kjör fólks og útgjöld heimilanna óháð tekjum.

En hvað segir athugasemd hæstv. fjármálaráðherra okkur um komandi kjarasamninga? Ráðherrann lítur í raun svo á að það sé nauðsynlegt að halda áfram að hækka gjöld og skatta vegna þess að annað væri þensluhvetjandi. Jafnvel þó að hækkunin væri hlutfallslega minni þá væri það samt þensluhvetjandi. Hvað segir það okkur um viðhorf ríkisstjórnarinnar til næstu kjarasamninga ef ráðið til að takast á við verðbólguna er fyrst og fremst það að þrengja að kjörum almennings, að hlutverk ríkisins í því sé að taka meira af launaseðli fólks?

Fjárfestingar eru annað atriði sem veldur talsverðum áhyggjum og enn eigum við eftir að komast til botns í því hvert ríkisstjórnin raunverulega stefnir í því efni. Rannsókn þessa fjárlagafrumvarps er auðvitað enn á frumstigi en við sjáum að vísbendingarnar eru ekki sérstaklega jákvæðar, margar hverjar. Jú, menn státa sig af framkvæmdum við Landspítalann sem, eins og flestir held ég að hafi gert sér grein fyrir núna, hefðu átt að fara allt öðruvísi fram og við að byggja nútímalegan spítala á hentugri stað frá grunni. Framkvæmdin við Hringbraut dregist mjög á langinn og áætlanir ekki staðist um. Mér sýnist að ríkisstjórnin í þessu fjárlagafrumvarpi geri ekki ráð fyrir því sem þegar er fyrirséð um umframkeyrslu þar. Það er ekki einu sinni vitað hvernig húsnæðismálum ríkisvaldsins sjálfs verður háttað. Það hefur verið óvissa með framkvæmdirnar hérna við kassann sem var ákveðið að bæta við þingið. Húsnæðismál ráðuneyta, sérstaklega utanríkisráðuneytisins og iðnaðarráðuneytisins, virðast vera í óvissu eftir að slitnaði upp úr samningum við Landsbankann um framtíðarhúsnæði þeirra. En það er líka ástæða til að hafa áhyggjur og ekki síður af fjárfestingu í framtíðarvexti. Til að mynda er það mjög sláandi að enn skuli 600–800 nemar sem hafa áhuga á að komast í iðnnám ekki fá að fara í það nám. Ég minnist þess að í áratugi hafa stjórnmálamenn talað um mikilvægi þess að efla iðnnám og hvetja fólk til að fara í iðnnám í auknum mæli. Þegar ungt fólk svarar því kalli eru ekki settir peningar í að taka við fólkinu og mennta það á því sviði sem skiptir hvað mestu máli við framtíðaruppbyggingu íslensks efnahagslífs.

Það er líka óvissa á öðru sviði iðnaðar, í kvikmyndaframleiðslu, þar sem ríkisstjórnin kynnir í fjárlagafrumvarpinu að fjárheimildir verði hækkaðar vegna endurgreiðslna kvikmyndagerðar á Íslandi um 300 millj. kr. Þetta er reyndar gamalt atriði, eitt af mörgum ágreiningsefnum ríkisstjórnarinnar, sem hér er til lykta leitt til að klára vanda síðasta og þar síðasta árs. Hins vegar gagnrýna kvikmyndaframleiðendur mjög það sem þeir túlka sem 30% niðurfærslu á Kvikmyndasjóði nú, ef við lítum fram hjá þeim fortíðarvanda sem verið er að gera upp. Á Bylgjunni í morgun kom fram að aðeins eitt verkefni að nafni True Detective, einhverjir þættir sem HBO framleiðir sem munu fara í framleiðslu á næsta ári, að endurgreiðslur vegna þess muni nema um 3 milljörðum kr. Tökur klárast í apríl á næsta ári og endurgreiðslur muni nema 3 milljörðum kr. í eingreiðslu. En í fjárlagafrumvarpinu fyrir allt árið 2023 sé gert ráð fyrir heildarendurgreiðslum upp á 1,7 milljarða. Eitt verkefni mun þurfa endurgreiðslur sem nema tvöföldu því sem gert er ráð fyrir að setja í málið í þessu fjárlagafrumvarpi. Gerast svona hlutir óvart eða eru menn að ýta á undan sér vandanum? Það gerist reyndar á fleiri sviðum, til að mynda í umræðu um útgjöldum til útlendingamála þar sem öllum á að vera ljóst að um verulegt vanmat er að ræða. Það er svo sem ekki nýtt í þeim málaflokki að menn jafnvel viljandi vanmeti þörfina og raunar á mörgum öðrum sviðum.

Óvissan birtist ekki bara í fjárlagafrumvarpinu sjálfu. Hún birtist líka í umræðum stjórnarliða um fjárlagafrumvarpið og stefnu ríkisstjórnarinnar þar sem flokkarnir virðast núna algjörlega vera óbundnir hver af öðrum, tala hver í sína átt, jafnvel um grundvallaratriði eins og atvinnuvegina. Talsmenn eins flokks kynna fabúleringar sínar um gjörbreytt umhverfi og gjaldtöku í sjávarútvegsmálum. Aðrir segja eitthvað allt annað. Fulltrúar sumra flokka vilja draga úr iðnframleiðslu, sérstaklega álframleiðslu á Íslandi, aðrir flokkar ósammála því, a.m.k. í orði (Forseti hringir.) og svo mætti lengi telja. Ég næ ekki að ræða um landbúnaðinn og margt fleira en þetta eru kannski meginskilaboðin af því sem komið er í þessari fjárlagaumræðu: Það er engin meginstefna ríkisstjórnarinnar. Menn tala bara hver í sína átt.