Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[12:42]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, ég beið spenntur eftir síðasta hlutanum um veiðigjaldið og afstöðu flokks hv. þingmanns, sem hann er formaður fyrir, til veiðigjalda á sjávarútveg og gjaldtöku í þeim málaflokki. Hann mætti gjarnan svara líka um bankaskattinn, sem ég er forvitinn um. Ég tel að ef það eigi að berjast gegn verðbólgu þurfi að greina hvaðan verðbólgan kemur. Verðbólgan núna kemur vissulega með háu orkuverði, bensínverði, og það er alveg rétt að það má lækka bensíngjaldið til að stemma stigu við verðbólgunni þar. Matarverð líka, innflutt matarverð má lækka. En það verður samt að berjast gegn verðbólgu hérna heima fyrir og það á að gera með því að auka framboð á húsnæði. Það hefur ekki verið gert. Ég tók eftir því í ræðu hv. þm. Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur að hún talaði um að ríkisstjórnin væri með fjárlögunum að auka verulega eftirspurnarmegin, að það væri verið hjálpa fólki að kaupa húsnæði, sem er gott og blessað en það getur hækkað verð og keyrt áfram verðbólguna. Þetta er því kúnstugt en það þarf að taka þetta lið fyrir lið, eins og ég sagði, verðbólguna utan og heimatilbúnu verðbólguna. Ég held hins vegar að þessi ríkisstjórn og þessi fjárlög sýni enga stefnu gagnvart komandi kjarasamningum og þar verður raunverulega kompásinn stilltur, í samningaviðræðunum. Þá sjáum við hvað raunverulega kemur upp úr hattinum, af því að ég get ekki lesið neina stefnu út úr þessu — sem segir okkur náttúrlega hvernig samsetning ríkisstjórnarinnar er. En ég tel samt að í núverandi kerfi þar sem við erum með aðalatvinnuveg þjóðarinnar, sem er sjávarútvegsmálin, sjávarútveginn, sem er gríðarlega öflug atvinnugrein, að þeirri atvinnugrein beri að greiða meira til ríkissjóðs, ríkið eigi að taka meiri tekjur þar inn. Þetta er auðlindagjald og þannig getum við lækkað á aðrar greinar, sérstaklega greinar sem lúta að nýsköpun, eins og kom með fram um t.d. kvikmyndaverkefnið True Detective og annað slíkt, svo að við getum farið inn á önnur svið. Við þurfum að komast út úr auðlindahagkerfi yfir í þekkingarhagkerfi. Það er grundvallarmálið. (Forseti hringir.) En mér leikur forvitni á að vita hver svör hv. þingmanns eru við spurningunum sem ég var með.