Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[12:46]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Virðulegur forseti. Það er mjög mikilvægt að við ræðum fyrst hvaðan við erum að koma til að vita hvert við erum að fara. Ég verð að segja að við upphaf umræðu um fjárlagafrumvarp fyrir næsta ár þá reikar hugurinn ósjálfrátt til þeirra ára sem varð hér efnahagslegt gjörningaveður af völdum heimsfaraldurs. Ég ætla ekki að gera lítið úr því að það var vel staðið að því af hendi allra þingmanna í þinginu, stjórnar- og stjórnarandstöðu, að bregðast við á þeim tíma og um það ríkti ágætissamstaða hér. Við gátum brugðist við með myndarlegum hætti þannig að við getum þá sagt í dag: Við vörðum efnahagslífið, við vörðum framleiðslutækin. Þetta held ég að sé mikilvægt að við rifjum upp þegar við erum að rýna þetta fjárlagafrumvarp. Það kom ekki einhvers staðar ofan úr loftinu að við gætum stigið þau skref sem þar voru stigin. Það var einfaldlega vegna þess að ríkissjóður var í mjög sterkri stöðu. Við sjáum þegar við berum núna saman stöðu ríkissjóðs Íslands við önnur lönd að okkur hefur lánast að halda vel utan um ríkissjóð, um leið og við beittum honum af mikilli hörku til að undirbúa og veita öfluga viðspyrnu þegar kom að heimsfaraldri. Þess vegna var það mjög mikilvægt að fjárlaganefnd, meiri hluti fjárlaganefndar í það minnsta, lagði það til í vor við umræður um fjármálaáætlun næstu fimm ára að herða aðeins á skrúfunum, að láta ekki fram ganga eins og áætlanir voru fyrst uppi um þá fjármálaáætlun eins og hún var lögð fram. Öll teikn voru uppi um að efnahagslífið væri að taka við sér með þeim hætti að við þyrftum aðeins að stíga á bremsurnar. Þess vegna er ánægjulegt að sjá að hér er lagt fram frumvarp sem ber með sér að þau orð voru tekin alvarlega og gott að rifja það upp að þetta frumvarp er í raun og veru útfærsla á þriggja mánaða gamalli samþykkt Alþingis á fjármálaáætlun til næstu fimm ára.

Ég held að það megi fullyrða, virðulegur forseti, að það sé nánast ótrúlegt að horfa til baka með þessum hætti og sjá að við getum núna sagt að hér er meiri hagvöxtur og minna atvinnuleysi. Velferðarkerfin hafa verið varin, velferðarkerfin sem hafa notið aukinna framlaga á undanförnum árum, og á sama tíma hefur kaupmáttur í landinu sjaldan verið meiri. Þetta er í raun og veru stóra myndin sem ég vil að við rifjum upp, þar sem við vitum hvaðan við erum að koma og þannig getum við undirbyggt umræðuna um hvert við viljum fara.

Ég ætla ekkert að mála myndina miklu bjartari en nauðsyn er til. Ég vil fyrst og fremst vera raunsær og ég held að það hafi verið raunsæi af þinginu í vor, snemmsumars, að grípa til þeirra aðgerða sem þar var gripið til enda hefur gengið gríðarlega vel hérna undanfarna mánuði. Þess vegna er það sérstakt fagnaðarefni þegar fram kemur hér í framsögu hæstv. fjármálaráðherra að 33% skuldaviðmið í árslok muni nást. Þetta er líklega — og ekkert líklega, þetta er mun bjartara en við þorðum að vona þegar við vorum að ræða endurskoðaða fjármálastefnu á sínum tíma og síðan fjármálaáætlun í fyrra og hvað þá síðastliðið vor. Það er á þessum grunni sem við getum síðan haldið áfram að byggja upp og takast á við þau verkefni sem eru á hverjum tíma og alltaf þarf að glíma við. Þótt þessi þykka bók, fjárlagafrumvarp fyrir árið 2023, innifeli ýmsar ráðstafanir, ýmsar tillögur, þá ætla ég ekki að draga neina dul á það að ég held að í þessu fjárlagafrumvarpi felist líka heilmikil tækifæri til að rýna og skoða betur hvernig við getum látið þessa miklu fjármuni sem um ríkissjóð streyma vinna miklu betur fyrir okkur í landinu heldur en er við fyrstu sýn.

Þar sem við erum núna að falla inn í þann hluta umræðunnar um fjárlagafrumvarp þar sem menn fara að taka fyrir einstaka málaflokka og einstök atriði þá langar mig að fara þangað kannski einna fyrstur. Ég ætla fyrst að nefna þátt eins og orkuskipti og loftslagsmál. Ég hef tekið eftir því að sú umræða hefur aðeins flotið hér um í ræðum manna í dag og ég fagna því vegna þess að ég held að einmitt orkuskiptin og til viðbótar aukin framlög til rannsókna, nýsköpunar og þróunar séu þeir stóru póstar sem munu byggja undir efnahagslega velsæld okkar til lengri tíma, þar fyrir utan að standa vörð um og nýta fiskstofnana okkar með ábyrgum hætti, standa vel að baki íslenskum landbúnaði og slíkum greinum sem hafa undirbyggt hagkerfi okkar hingað til. Orkuskiptin komast í sérstakt kastljós þegar við skoðum ástand efnahagsmála í löndum í kringum okkur og við værum sannarlega ekki að ná þeim árangri í ríkisfjármálum, værum ekki að ná þeim árangri í efnahagslífinu hér á landi, ef við værum jafn háð innfluttum orkugjöfum, eins og mörg önnur ríki sem við sjáum núna að glíma við mun hærri verðbólgu við mun þrengri stöðu í fjármálum sínum heldur en við þó glímum við.

Orkuskiptin eru ekki þannig að við leysum þau í eitt skipti fyrir öll. Þau eru langtímaverkefni. Ég vil nefna, virðulegur forseti, af því að ég hef tækifæri til þess að starfa á öðrum vettvangi vegna orkuskipta, á vettvangi orkusjóðs, að gróskan hér úti í samfélaginu og viljinn til að leita nýrra orkugjafa og raungera orkuskiptin, fyllir mig mikilli bjartsýni. Þess vegna vil ég segja um þau markmið sem við höfum sett okkur í loftslagsmálum að vissulega getur verið torsótt að ná þeim en ég er fullur bjartsýni á að við náum þeim. Ég vil lýsa þessum stundum með þeim hætti að það séu ákveðin tómatsósuflöskuáhrif í þessu öllu saman. Við hristum flöskuna og svo kemur þetta bara í stórum skammti og kannski of stórum skammti vegna þess að gróskan í þeim heimi, í þeim umsóknum sem voru sendar til orkusjóðs í sumar, segir mér einfaldlega það að ef við höfum dug og þor til að standa á bak við nýsköpun á þessu sviði þá muni þetta verða áfram einn af okkar sterkustu póstum í efnahagslífinu, að grípa innlenda orku og byggja efnahagskerfið okkar á þeim þætti.

Það er annar þáttur sem tengist kannski einstaka málaflokkum sem ég vil nefna á þessum stað í umræðunni, virðulegi forseti, sem ég vil að hv. fjárlaganefnd spreyti sig aðeins á að skoða, hafi hún ákveðna möguleika til þess eða þá í framhaldi af því þegar við ræðum næstu fjármálaáætlun. Í ráðstöfunum okkar erum við með ýmsar tilfærslur í kerfum sem við höfum byggt upp á undanförnum árum. Við erum t.d. að greiða niður flutningskostnað raforku til þess að jafna á milli dreifbýlis og þéttbýlis. Ég myndi vilja sjá í þessum sal samstöðu um það að orkuskipti og notkun raforku væri jöfn fyrir alla landsmenn, að það væri ekki gerður greinarmunur á hvar á landinu við byggjum með tilliti til þess hvað það kostar að flytja raforkuna til okkar. Ég veit að framleiðsla og sala er á samkeppnismarkaði og þannig vil ég alveg hafa það. En hér erum við t.d. að leggja verulega fjármuni til að jafna verðmun á milli þéttbýlis og dreifbýlis. Við endurskoðun á eignarhaldi Landsnets tel ég einmitt að eigi að horfa til þess hvernig við getum látið efnahagsreikninga þessara félaga sem þar eru að vinna með okkur í því að skapa slíka jafnstöðu þarna á milli.

Ég held að það sé fyrir þingið, fyrir þingmenn, ótal tækifæri til að rýna í frumvarpið og þó að ég nefni þetta dæmi sérstaklega og útfæri það ekkert með nákvæmum hætti í stuttri ræðu hér, þá eru ótal tækifæri fyrir okkur að hugsa hvernig við getum nýtt fjármunina betur af því að það eitt er langstærsta og besta efnahagsaðgerðin til lengri tíma. En stóra myndin er þessi, eins og ég sagði í upphafi minnar ræðu: Við erum með meiri hagvöxt og við erum með minna atvinnuleysi og okkur gengur betur en við þorðum að vona. Kjarninn í þessu öllu saman er innleggið í framtíðina; að standa að málum þannig að það verði samspil peningamálastefnu, ríkisfjármálastefnu og að verja hag heimila. Það mun verða prófsteinninn á hvaða árangri við náum á næstum árum.