Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[12:59]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans ágætu fyrirspurn. Eitt af þeim atriðum sem meiri hluti fjárlaganefndar lagði fyrir ríkisstjórnina í samþykktri fjármálaáætlun í vor var að það þyrfti, og það voru engin ný tíðindi, að fara í endurskoðun skattkerfis umferðar. Við beinlínis skrifuðum inn í okkar tillögur í nefndaráliti okkar að það þyrfti að hraða þeirri vinnu og þetta er í mínum huga fyrsta birtingarmynd af því við erum á leiðinni inn í nýtt skattlagningarkerfi. Ég get spurt hv. þingmann á móti: Finnst honum eðlilegt að við séum hér með ívilnunum, sem sannarlega þarf á að halda til þess að leysa fram einhverja þróun, að heimila nýorkubílum að keyra um vegina án þess að greiða eðlilegt endurgjald fyrir það? Varðandi hækkun eldsneytisskatta og dreifingu þeirra um landið þá ætla ég ekkert að loka augunum fyrir því sem hv. þingmaður nefnir, það mun leita í verðlag og mun bitna á þeim sem þurfa að kaupa mikið eldsneyti. Ég ætla ekkert að þræta fyrir það. En heildaráhrifin af þessum gjaldabreytingum eru einhvers staðar á bilinu 0,1–0,2% og það skora ég á hv. þingmenn að ræða í umræðunum um svokallaðan bandorm, að við náum betur utan um það hvaða áhrif þessi gjaldahækkun hefur til þess að við getum þá alla vega horfst í augu við hana.