Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[13:01]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Hann gerir að umtalsefni þá staðreynd að í þessu fjárlagafrumvarpi er m.a. verið að draga stórkostlega úr ívilnunum vegna hreinorkubíla og það verður að teljast nokkuð kaldhæðnislegt að einmitt þegar kannski fólkið í lægri tekjuendanum er farið að sjá fram á að það geti orðið hagkvæmt fyrir sig að kaupa rafmagnsbíla og taka þátt í orkuskiptavegferðinni, eftir því sem olían hækkar í verði og bílarnir verða ódýrari í framleiðslu, þá akkúrat tekur ríkisstjórnin upp á því að skrúfa fyrir þessar ívilnanir. Þetta er bara svolítið dæmigert fyrir skattapólitík þessarar ríkisstjórnar. Hæstv. fjármálaráðherra er stéttvís maður og gerir ofboðslega vel við sitt fólk í þessu frumvarpi að því leytinu til að skattbyrðinni er velt yfir á lágtekju- og millitekjuhópana. Ég skil hins vegar ekki alveg hvernig þingmenn eins og hv. þm. Haraldur Benediktsson, þingmenn í hinum dreifðari byggðum, geta réttlætt þessa pólitík fyrir sínum umbjóðendum. Eins og hv. þingmaður nefnir er þessi gjaldtaka sem hér er boðuð aðeins byrjunin. „You ain´t seen nothing yet“, það eru skilaboðin til landsbyggðarinnar. Við erum að fara að sjá veggjöld, gangagjöld, hærri kílómetragjöld. Ég velti því fyrir mér hvort hv. þingmaður hafi séð þetta fyrir sér þegar hann átti samtöl við sína kjósendur í aðdraganda kosninga, að örfáum mánuðum síðar eða ári síðar myndi hann standa hér í ræðustól og tala fyrir stóraukinni gjaldtöku sem leggst þyngra á tekjulægri hópana (Forseti hringir.) og þyngra á fólkið í hinum dreifðari byggðum heldur en á fólkið á höfuðborgarsvæðinu.