Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[13:25]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Auðvitað svara ég þessu andsvari. Ég hélt því alls ekki fram að það væri neitt um þetta í stjórnarsáttmálanum. Ég hélt því ekki einu sinni fram að þetta væri í núverandi stefnu Sjálfstæðisflokksins. Ég var einungis að vitna til þess að ef sú stefna Sjálfstæðisflokksins að selja Landsvirkjun hefði orðið ofan á, sem á sínum tíma var svo sannarlega skrifuð á blaði og samþykkt á landsfundum í Laugardalshöll, þá væri veruleikinn aðeins annar heldur en er í dag. Því er það auðvitað bara þannig að batnandi fólki er best að lifa og gott að Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú látið af þessu blæti sínu og ekki ætla ég að kenna hv. þingmanni um það. En svona var þetta nú. Það þarf ekkert annað en að lesa bara sögur, greinar, viðtöl, jafnvel ævisögur framámanna í þessum flokki. Þetta var auðvitað inni í myndinni og mikill vilji til þess um tíma þó að svo sé sem betur fer ekki nú.