Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[13:37]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Í misheppnaðri tilraun til að breyta stefnuræðu sinni í uppistand sagði hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra að það hefði komið fram í fréttum hér að Píratar hefðu verið óánægðir með fjárlagafrumvarpið og það mætti svo sem bara ganga út frá því. Já, en við Píratar erum ekki ein um það að vera óánægð með fjárlagafrumvarpið. Stór hluti launafólks í landinu hefur lýst yfir áhyggjum um þær auknu byrðar sem lagðar eru á almenning.

Í umræðu um fjárlagafrumvarpið talaði hæstv. ráðherra fjálglega um það að ráðast á verðbólguna en á sama tíma hækkar hann til muna mörg þeirra gjalda sem eru hluti af vísitölunni sem er notuð til að mæla verðbólguna. Þar með er hann að hella olíu á verðbólgubálið og skapa vítahring sem mun hafa slæm áhrif á ástand heimilanna. Þegar hann er spurður um þetta málar hæstv. ráðherra þetta upp sem skattalækkun, af því að hann hækkaði ekki gjöldin um sömu krónutölu og verðbólga hafði sagt til um. Ótrúlegt hvað Sjálfstæðismenn eru ávallt duglegir að mála allt sem þeir gera sem skattalækkanir, meira að segja skattahækkanir eins og þessar gjaldahækkanir eru. Á sama tíma og sífellt meiri byrðar og gjöld eru sett á heimilin í landinu þurfa sægreifarnir sem maka krókinn sem aldrei fyrr ekki að horfa upp á hækkuð gjöld fyrir afnot sín af auðlindunum. Nei, þau þurftu ekki að hækka í samræmi við verðbólgu. Ef við notum lógík hæstv. ráðherra er hann að veita sægreifunum veglega skattalækkun.

Í umfjöllun Stundarinnar um tekjur ríkustu einstaklingana fyrir nokkrum vikum kom svo greinilega í ljós hin mikla breyting sem hefur orðið á skatttekjum ríkisins af þeim sem eru í hæstu tekjutíundinni. Ríkasta fólkið á Íslandi borgar nú orðið mjög lítinn tekjuskatt og greiðir þess í stað fjármagnstekjuskatt. Með öðrum orðum: Í stað þess að borga 46% tekjuskatt, líkt og launþegar í efstu þrepum gera, þá greiða hinir ríku aðeins 22% í fjármagnstekjuskatt. Á Norðurlöndum er þessi skattur frá 30 og upp í 42% en hér á landi má alls ekki hækka þennan skatt á vini og fjölskyldu hæstv. ráðherra. Einstaka auðmenn hugsa um samfélagið og velja að borga sér allt sitt út sem tekjur og greiða því 46% skatta. Því miður velja 99% þeirra að nota sér þennan fjölskyldu- og vinaafslátt hæstv. ráðherra og sleppa því við að leggja sitt af mörkum til þess að tryggja velsæld allra þeirra sem búa á íslandi.

Hæstv. ráðherra predikar líka um að skera niður ríkisbáknið en þegar kom að því að fjölga ráðuneytum þá opnaðist buddan hratt og báknið fékk að vaxa og á meðan nær allar stofnanir þurfa að vera með aðhald milli ára í sínum rekstri er kostnaðurinn við öll ráðuneyti, nær öll ráðuneyti, að hækka um hundruð milljóna króna á hvert ráðuneyti. Já, það virðist skipta miklu máli hvar þarf að sýna aðhald og hvar er í fínasta lagi að eyða. Það er nefnilega mismunandi forgangsröðun sem skilur okkur í Pírötum frá flokki hæstv. ráðherra. Við Píratar viljum leggja meiri álögur á þá sem breiðust hafa bökin. Við viljum að þeir sem fá aðgang að sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar greiði raunhæft gjald í stað þess að allur ágóðinn renni í vasa örfárra sægreifa. Við Píratar viljum skoða það að hækka fjármagnstekjuskatt til þess að þeir ríku borgi sinn skerf til að tryggja að við getum haldið uppi grunnþjónustu hér á landi og stuðlað að meiri velsæld. Þegar talað er um að hækka slíka skatta byrjar grátkór hæstv. fjármálaráðherra að tala um að slíkt muni hefta nýsköpun og allt efnahagslífið. Við Píratar trúum á það að styðja vel við nýsköpun og vera með öfluga hvata til þess að skapa hér öflug fyrirtæki. Það er nefnilega þannig að þegar við erum með öflugt, samfélagslegt öryggisnet og starfsmenn búa við velsæld þá njóta fyrirtækin góðs af því að vera með heilbrigða, ánægða og sæla starfsmenn. Það er akkúrat þá sem fyrirtækin græða jafnvel meira.

Við Píratar viljum líka sjá breytingu þegar kemur að tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga en þau síðarnefndu fá t.d. ekki neinn hlut af fjármagnstekjuskattinum sem, eins og ég benti á áðan, hefur orðið að valkosti hinna ríku til að skrá tekjur sínar.

Við Píratar viljum líka alvöruaðgerðir í loftslagsmálum og við getum fjármagnað þær og öfluga nýsköpun á sviði loftslagsmála ef við látum þá sem raunverulega menga, stóriðjuna og iðnfyrirtækin, greiða fyrir þá mengun. En nei, hæstv. ráðherra vill ekki heyra á það minnst að skattleggja fyrirtækin heldur telur hann að best sé að sækja allt það fjármagn með því að rukka almenning með flötum skatti sem leggst verst á þá sem minnst hafa milli handanna, skatti sem virkar sem neikvæður hvati til að fara í orkuskipti í samgöngum. Þarna viðurkennir hæstv. ráðherra ekki að hann sé hækka skatta heldur bara setja upp gjöld.

Við Píratar viljum bæta stöðu eldri borgara og öryrkja. Við viljum afnema skerðingar og tryggja mannsæmandi lágmarksframfærslu. Og já, við viljum láta hæstu tekjutíundina, sem tvöfaldaði kaupmátt sinn á milli ára, borga fyrir þessar breytingar því að þeir hafa efni á því en ekki þeir fátæku. Við Píratar búum nefnilega ekki í sama fílabeinsturni og hæstv. ráðherra, fílabeinsturni þar sem hann upplifir ekki þá fátækt sem er að aukast allt í kringum hann, fílabeinsturni þar sem ávallt er hægt að borða dýrindis mat og drekka fínt vín á meðan hinir tekjulægstu þurfa að neita sér um mat til að endar nái saman, fílabeinsturni þar sem biðlistar fyrir heilbrigðisþjónustu eru ekki til því að það er hægt að borga fyrir að hoppa fremst í röðina, fílabeinsturni þar sem sumarfrí á Sikiley er árlegt brauð á meðan þeir tekjulægstu vinna dag og nótt til þess eins að eiga ofan í sig og á.

Frú forseti. Er ekki kominn tími til þess að hæstv. ráðherra komi niður úr fílabeinsturninum og átti sig á raunveruleikanum allt í kringum sig? Eða kannski er bara best að hæstv. ráðherra láti öðrum sem eru í betri tengingu við raunveruleikann um það að skapa framtíðarsamfélag velsældar og velmegunar.