Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[13:47]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður spyr hvort það sé nokkur misskipting á Íslandi. Jú, það er misskipting á Íslandi og hún hefur aukist til muna í stjórnartíð þessarar ríkisstjórnar. Fátækt á Íslandi er kannski ekki það sama og fátækt annars staðar í heiminum en það er fólk sem neitar sér um mat, neitar sér um lyf og neitar sér um ansi marga hluti af því að það hefur ekki næga peninga milli handanna. Sér í lagi á þetta við um öryrkja, eldri borgara og einstæða foreldra. Ég hvet hv. þingmann til þess að fara og hitta það fólk, það eru ekki örfáir heldur þúsundir sem lifa við slíkt hér á landi. Það er nákvæmlega þessi fílabeinsturn sem við þurfum að fara úr og við þurfum að sjá hvernig ástandið raunverulega er hjá fólki. Ég vona að við getum fundið leiðir til þess að draga úr þessu ójafnvægi á milli þess hvernig hinir ríkustu lifa og hvernig stór hluti þeirra sem eru fátækir lifir hér á landi. Jú, við lifum við ýmislegt hér sem er gott miðað við mörg önnur lönd en bilið er samt sem áður að aukast milli hinna ríku og hinna fátæku.