Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[13:49]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég ákvað að fara í andsvar við hann vegna þess að ég held að hann hafi einmitt snúið myndinni við þegar hann talar um fílabeinsturn. Förum aðeins yfir það. Lífsgæði hér á landi, þar erum við í fjórða sæti í heiminum samkvæmt Sameinuðu þjóðunum. Félagslegur hreyfanleiki, fimmti mestur í heiminum hér. Gini-stuðullinn, sem á að mæla jöfnuð innan OECD, fjórði mestur hér á landi. Öryggi, næsthæst. Fátækt 3,1%, næstlægst af OECD-löndunum, það á við fátækt eldri borgara. Við erum í þriðja neðsta sæta varðandi fátækt ungs fólks. Vil ég að einhver sé fátækur á Íslandi. Nei. Eigum við að sameinast um að reyna að koma í veg fyrir það? Já. En þetta er samt raunveruleikinn, hv. þingmaður. Stuðningur við barnafjölskyldur er fjórði mesti hér á landi af OECD-löndunum. Það er svo mikilvægt að þegar við stöndum í þessari pontu og tölum um jafn mikilvægt mál og fjárlögin og þá stefnu sem við eigum að marka okkur í efnahagsmálum, að við tölum út frá raunveruleikanum, ekki út frá fílabeinsturninum.

En að því sögðu vil ég spyrja, vegna þess að hér komu til umræðu skattar og ég fer betur yfir það í ræðu minni á eftir: Hyggjast Píratar hækka eða lækka álögur á fjölskyldur í Reykjavíkurborg? Nú er ég að vísa í það að fasteignamat hefur hækkað alveg gríðarlega og við vitum að það er hluti af vandamálinu sem við glímum við hvað verðbólguna varðar. Þá hafa mörg sveitarfélög stigið fram og sagt: Við munum koma í veg fyrir það að farið verði dýpra ofan í vasa okkar skattgreiðenda vegna þess að við ætlum að lækka prósentuna, við ætlum ekki að hækka skatta á fjölskyldur í landinu. Hv. þingmaður fór aðeins yfir það að krónutöluaukningin væri skattahækkun, þó að fjármálaráðherra sagði það vera skattalækkun. Ég veit ósköp vel að hv. þingmaður veit mjög vel hvað átt er við með þessu. Þess vegna er kannski áhugavert bara að kalla það hér fram: Hvað hyggjast Píratar gera í þeirri aðstöðu sem þeir hafa, að ég held bara í Reykjavíkurborg reyndar, (Forseti hringir.) kannski sem betur fer fyrir mig og aðra? Á þar að hækka eða lækka álögur á íbúa?