Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[13:53]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Já, haustið er með sanni komið þegar við fáum þessa fallegu bók í hendur. Við þingmenn verðum eins og spenntir skólakrakkar sem setjast að borði við nám með yfirstrikunarpennana og gulu miðana og byrjum að lesa og setja okkur inn í myndina. Þessi mynd sýnir kannski stóru myndina, sem ég kom aðeins inn á í andsvari áðan, þ.e. hvað við Íslendingar höfum það gott í heildina. Mig langar þá að byrja aðeins að segja frá því að við sem sitjum í Íslandsdeild Norðurlandaráðs áttum góðan fund hér fyrir nokkrum dögum þar sem við fengum félaga okkar í Norðurlandaráði, Eystrasaltsþinginu og góða gesti frá Úkraínu, Hvíta-Rússlandi og Rússlandi til að fara aðeins með okkur yfir stöðuna. Ég þarf ekkert að segja þeim sem hér sitja þvílíkan hrylling þjóðin í Úkraínu er að upplifa. Það er alveg ljóst að stríðsrekstur Pútíns hefur áhrif um allan heim og sérstaklega innan Evrópu. Á meðan úkraínska þjóðin greiðir gjald með lífi sínu og ættingja sinna tekst Evrópa á við mikla verðbólgu og orkukreppu. Það er okkur sem hér sitjum stundum hollt að fara aðeins út fyrir landsteinana eða tala við kollega okkar í hinum löndunum til að átta okkur á því hvaða verkefni verið er að glíma við.

Nú er það þannig að Norðurlöndin, og Ísland þar að sjálfsögðu meðtalið, eru þau lönd þar sem hvað best er að búa í heiminum. Við erum svo lánsöm að íbúar okkar hafa það upp til hópa, bæði að meðaltali en líka miklu meira en það, mjög gott. Það er bara staðreynd og við vitum það öll. Samt er það þannig að kollegar mínir annars staðar á Norðurlöndunum eru að glíma við ofboðsleg vandamál sem við erum svo lánsöm að vera ekki að glíma við. Þó að við séum vissulega með verðbólgu eins og þau þá erum við með okkar hreinu sjálfbæru orku. Þar af leiðandi hefur stríðsrekstur og ofbeldi Pútíns ekki sömu áhrif hér og hjá vinum okkar í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi.

Að þessu sögðu er það stóra myndin hjá okkur, hvernig við höfum það. Það er það sem þetta fjárlagafrumvarp sýnir svart á hvítu, að við erum á réttri leið. Við erum sem sagt í miklu betri stöðu en helstu nágrannaríki okkar og okkur hefur tekist að verja kjör heimilanna heilt yfir sem hafa séð fleiri krónur í vasanum. Íbúar hér eiga meira í íbúðunum sínum og finnst auðveldara að láta enda ná saman. Það sýna gögn og tölur alveg skýrt. Hallinn á ríkissjóði minnkar áfram og skuldahlutfallið er miklu betra en við þorðum að vona. Markmiðið í þessu frumvarpi er einna helst tvíþætt, þ.e. við þurfum að halda áfram að vinna á verðbólgunni og stuðla að stöðugleika. Það er það sem skiptir mestu máli fyrir alla landsmenn og ekki síst þá sem eru í lægri tekjutíundinni. Við þurfum líka að lyfta upp með nákvæmlega þeim. Það er þar sem fókusinn okkar á að vera. Við verjum viðkvæma hópa fyrir áhrifum verðbólgunnar með umtalsvert hærri bótum og barnabótaauka. Þetta bætist svo við þær skattalækkanir sem hafa á síðustu árum lyft langmest undir þá sem eru tekjulægstir.

Hv. þingmaður kom einmitt inn á þá sem lenda á milli kerfa og þar vil ég taka undir með hv. þingmanni. Ég held einmitt að fókusinn okkar eigi að vera þar. Hver eru jaðaráhrif þess þegar við setjum á þrepaskipt skattkerfi? Hver eru jaðaráhrif þess þegar við erum með millifærslukerfi ríkisins? Við þurfum einmitt að horfa á það. Eru einhverjir hópar sem falla þarna á milli og hvaða aðgerðum þurfum við að beita til að ná sérstaklega til þeirra? Við þurfum að horfa á það í staðinn fyrir að tala eins og hér sé allt á vonarvöl, sem það svo sannarlega er ekki, og þess vegna þurfi einhverja allsherjarkerfisbreytingu, sem við þurfum ekki. Við höfum einmitt sýnt að við erum á þessum góða stað, m.a. vegna þess hvernig við höfum stýrt fjárhag ríkisins á síðustu árum.

Þó að stóra myndin sé svona og við höfum það í mörgu svo gott — og ég held að það sé mikilvægt að við minnum okkur á það og föllum alls ekki í þá gryfju að tala okkur með einhverjum hætti niður — þá hef ég áhyggjur af fasteignamarkaðnum. Ég hef áhyggjur af ungu fólki sem þarf að komast inn á fasteignamarkaðinn. Vissulega höfum við hér og ríkisstjórnin gripið til aðgerða hvað það varðar til að aðstoða ungt fólk. En stóra málið er auðvitað að það er framboðsvandi, það vantar fleiri íbúðir. Þarna verðum við að tryggja að framboðið sé nægjanlegt og til þess verðum við að fá sveitarfélögin í lið með okkur. Við verðum einfaldlega að tryggja að byggðar verði fleiri íbúðir á höfuðborgarsvæðinu á næstu árum. Þá er mjög mikilvægt að sveitarfélögin einbeiti sér öll að því að koma þeim lóðum sem til eru samkvæmt skipulagi til framkvæmda þannig að hægt sé að hefja uppbygginguna.

Vegna þess að ég talaði um sveitarfélögin þá hef ég, hafandi yfir áratugareynslu af vettvangi sveitarfélaga, oft talað um það hér að við þurfum líka að huga að tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Ég hafði mjög miklar áhyggjur af sveitarfélögunum í Covid en það ótrúlega gerðist að fjárhagur þeirra var betri en áætlanir og svartsýnustu spár höfðu gert ráð fyrir. Það var m.a. vegna þeirra aðgerða sem við fórum í, þær gögnuðust sveitarfélögunum til muna og þau stóðu þessa ágjöf miklu betur af sér en ég óttaðist í fyrstu.

Mig langar líka að nefna annað sem ég mun leggja áherslu á í vinnu minni í fjárlaganefnd og vil fara yfir. Það eru framlög sem á síðustu árum hafa verið ákveðin í fjárlaganefnd. Ég er til að mynda að tala hér um endurhæfingarþjónustu, meðferðarþjónustu og annað. Ég held að við verðum að finna einhverjar skýrari leið til að gera hæstv. ráðherra grein fyrir því að við í fjárlaganefnd erum með ákvörðunum okkar að leggja til að þau setjist yfir þessa málaflokka og þessa samninga og leiti betri leiða. Ég er sem sagt að segja að það gangi ekki upp að ár eftir ár ákveði fjárlaganefnd að setja eitthvað inn, alltaf sömu verkefnin til sömu aðilanna, en þegar við fáum svo fjárlagafrumvarpið þá skilar það sér ekki inn í fjárlög næsta árs. Mér finnst þetta óeðlilegt og ég hygg að við í hv. fjárlaganefnd munum taka þetta fyrir.

Að þessu sögðu vil ég bara alls ekki að við gleymum því hver stóra myndin er. Hver er stóra myndin? Hvernig höfum við það? Ég fór örstutt yfir það hér áðan og ég ætla að gera það aftur. Við erum oft að tala um hagvöxtinn og við erum að tala um beinu tölurnar í fjárlögum — og þær skipta máli, algerlega, en ég hef líka talað fyrir velsældarhagkerfinu. Það verður ekki allt mælt í meðaltölum eða hagvexti og við þurfum líka að hugsa um hvernig þjóðin hefur það. Í hamingju erum við í fimmta hæsta sæti innan OECD og í þriðja sæti í heiminum; lífsgæði, Ísland í fjórða hæsta sæti í heiminum; félagslegur hreyfanleiki, í fimmta sæti; jöfnuður, fjórði mesti í heimi innan OECD; öryggi, næsthæst innan OECD; öryggisupplifun, þriðja hæst; aðgengi að tækni, næstbest í heiminum; fátækt, næstlægst hjá eldri borgurum og þriðja lægst hjá ungu fólki; jafnrétti kynjanna, mest í heiminum; stuðningur við barnafjölskyldur, fjórða hæst innan OECD og svo mætti lengi telja; umhverfisgæði, hæst innan OECD; notkun endurnýjanlegra orkugjafa 90%, hæst innan OECD. Þegar hv. þingmenn koma hingað upp og ræða hlutina þá er mikilvægt að við horfum á stóru myndina og áttum okkur á því að við erum í grunninn í miklu lífsgæðasamfélagi.

Því miður er það svo að lífsgæðum á heimsvísu hrakar. Nýlega rakst ég á frétt í Ríkisútvarpinu þar sem talað var um að lífsgæðum á heimsvísu hraki milli ára í fyrsta sinn í rúma þrjá áratugi. Þetta var samkvæmt nýrri skýrslu Sameinuðu þjóðanna. Bakslagið má helst rekja til áhrifa heimsfaraldursins á fæðuöryggi, afleiðingar þess og einnig til stríðsins í Úkraínu. Það er þó svo, hvað þessi lífsgæði varðar, að þá er Ísland í þriðja sæti sem verður náttúrlega að teljast ofboðslega gott. Í öðru sæti er Noregur og í fyrsta sæti er Sviss. Mig langar kannski að benda fólki sem hér hefur talað fyrir inngöngu í Evrópusambandið á þessa staðreynd. Það er kannski áhugavert að horfa til þess að í þessum þremur löndum eru lífsgæði mest.