Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[14:07]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Forseti. Mér fannst spurningin í sjálfu sér ekki vera flókin en hún var sú hvort þessar hækkanir, sem hafa bein áhrif til hækkunar á vísitölu neysluverðs, fari ekki gegn verðbólgumarkmiðum ríkisstjórnarinnar. Ég skil þingmanninn ósköp vel að vilja fara með umræðuna inn á aðrar brautir en við erum hér að tala um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Í því sambandi myndi ég vilja bæta við annarri spurningu af því að með þessu er afleiðingin sú að verið er að auka byrðar á millitekjufólk sem finnur þá þegar fyrir verðbólgunni af miklum þunga, með aukinni greiðslubyrði af lánum sínum, hækkandi verðlagi úti í samfélaginu. Hvert er framlag ríkisstjórnarinnar fyrir þennan hóp?

Af því að þingmaðurinn nefnir sveitarfélögin og stöðu á húsnæðismarkaði þá vek ég athygli hennar á því að í fjárlagafrumvarpinu er verið að lækka stofnframlög til uppbyggingar í almenna íbúðakerfinu um 2 milljarða kr. Varla verður það til að flýta fyrir byggingu nýrra íbúða.