Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[14:09]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætlaði einmitt að tala um húsnæðismálin. Eins og hv. þm. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir benti á er verið að lækka stofnframlög vegna félagslegra íbúða um 2 milljarða. Á sama tíma talar ríkisstjórnin fjálglega um að byggja eigi hér fullt af íbúðum og gera fullt af hlutum í tengslum við húsnæðisvandann. En þegar við spyrjum um það hvar fjármagnið sé er alltaf farið út í að segja: Já, en sveitarfélögin. Við erum ekki að spyrja um sveitarfélögin og framboðið á lóðum hjá þeim. Við erum að spyrja: Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera? Hvaða stofnfjárframlög ætlar ríkisstjórnin að leggja fram? Hvaða aðra hluti ætlar ríkisstjórnin að gera til þess að gera ungu fólki kleift að komast út á húsnæðismarkaðinn? Þetta eru spurningarnar. Ekki benda á aðra. Við erum að spyrja: Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera? Það sést ekkert í þessu fjárlagafrumvarpi, ekkert nema niðurskurður þegar kemur að húsnæðismálunum. Því spyr ég hv. þingmann, sem hefur vonandi náð að lesa eitthvað annað út úr þessum þykku bæklingum en við hin: Hvar eru aðgerðirnar hér? Hvar er fjármagnið í aðgerðirnar?