Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[14:14]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Það eina sem ég heyrði var að það sé starfshópur að störfum. Það eru alltaf starfshópar í öllu. (BHar: … sagði það bara einu sinni.) Ég heyrði heldur ekkert um hvað eigi að gera fyrir unga fólkið. Ég ætlaði að nota seinna andsvar mitt í að spyrja um hluti tengda Úkraínu, en áður en ég geri það langar mig að skora á hv. þingmann að hafa aðeins meiri metnað þegar kemur að staðsetningu Íslands á einhverjum listum. Að sjálfsögðu viljum við vera best í heimi, ekki í þriðja, fjórða og fimmta sæti. En varðandi Úkraínu þá vitum við að það er mikið að gerast og það þarf mikið mannúðarstarf þar, það þarf að styðja við hluti tengda varnarmálum og annað og styðja Úkraínumenn í sínu stríði. Ég sakna þess að sjá ekki hér í fjárlagafrumvarpinu sérstaklega fjallað um það hvaða fjármuni Ísland ætli að leggja í þetta, (Forseti hringir.) varðandi það að taka á móti flóttamönnum frá Úkraínu, varðandi mannúðaraðstoð til Úkraínu og varnarmál í Úkraínu. (Forseti hringir.) Ætlum við bara að taka það af öllu hinu eða ætlum við að gera eitthvað sérstakt?