Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[14:23]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, við höfum það svo gott á Íslandi út af landinu okkar, út af náttúruauðlindum en ekki stjórnmálunum. (Gripið fram í.) Það eru ansi mörg lönd í heiminum, hv. þingmaður, þar sem náttúruauðlindirnar eru miklar og fólk sveltur. Ástæðan fyrir því að við höfum það svo gott á Íslandi er sú að okkur hefur lánast að stýra samfélaginu með þeim hætti. Okkur hefur lánast að búa til verðmæti úr sjávarauðlindinni. Okkur hefur lánast að búa til verðmæti úr orkuauðlindinni. Það er stjórnmálunum að þakka. (Gripið fram í.) Það er þannig. En hv. þingmaður, við getum örugglega verið sammála um það að einhverjir hér í þessu samfélagi mættu hafa það betra og ég held að við ættum miklu frekar að einbeita okkur að því að finna hverjir það eru og hvaða lausnir við getum fundið til að bregðast við því. En það er ekki þannig að það þurfi að rífa upp allar stoðirnar í þessu samfélagi, því að nákvæmlega eins og ég segi, við höfum það gott. Það er því að þakka hvernig við höfum stýrt þessu samfélagi.