Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[14:25]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Virðulegi forseti. Það vekur furðu mína þegar fjárlagafrumvarpið er lesið hversu algjört skeytingarleysi gagnvart heimilum landsins er í þeirri verðbólgu sem nú geisar. Það er ekki nóg með að um skeytingarleysi sé að ræða, það er einbeitt stefna ríkisstjórnarinnar að láta verðbólguna koma eins harkalega niður á heimilum landsins og mögulegt er. Ég skil að það þurfi að ná niður verðbólgunni en þegar lækningin er svo miklu verri en sjúkdómurinn sjálfur, til hvers er þá lagt í þessa vegferð? Helstu aðgerðirnar gegn verðbólgunni virðast felast í vaxtahækkunum Seðlabanka íslands. Það verður að gera ráð fyrir að ríkisstjórnin styðji þessar óheyrilegu vaxtahækkanir því að þegar upp er staðið þá er það hún sem ber ábyrgð á þeim. En til hvaða aðgerða hefur ríkisstjórnin sjálf gripið gegn verðbólgunni? Af því tilefni vil ég nefna að hungurlúsin sem öryrkjum og öldruðum var færð með annarri hendinni í vor og svo tekin af þeim með hinni getur ekki flokkast sem aðgerð gegn verðbólgunni þó að fjármálaráðherra hafi ítrekað talað með þeim hætti. Jafnvel þótt sú aðgerð, 3% hækkun, hefði skilað þeim árangri sem stefnt var að hefði hún einungis verið plástur á svöðusár þeirra verst stöddu en ekki haft nein áhrif á verðbólguna sem slíka.

Í fjárlagafrumvarpinu er ekkert sem tryggir að staða heimilanna lagist í bráð. Þó væri t.d. hægt að lækka verðbólguna á einu bretti um 2,6 prósentustig eða um nær 27% með því að taka húsnæðisliðinn út úr vísitölunni og enn meira ef hin samræmda evrópska vísitala væri notuð. En nei, í staðinn á þjóðin að sætta sig við vaxtaokur svo mánuðum skiptir á meðan fasteignamarkaðurinn róast kannski smátt og smátt á næstu mánuðum, sennilega svo að ríkisstjórnin geti hrósað sér af árangri upp á 0,2% í einu sem jafnvel stafar frekar af sumarútsölum en lækkun á fasteignaverði. Ég hef ekki séð neinar aðgerðir til að draga úr peningamagni í umferð frá því að ársverðbólga fóru yfir efri vikmörk verðbólgumarkmiðs í mars 2021. Af hverju hefur það ekki verið gert? Getur verið að það stafi af endalausri þjónkun ríkisstjórnarinnar við fjárfesta og banka sem alls ekki vilja draga saman seglin á nokkurn hátt og þá sé bara betra að skella þessu öllu á heimilin sem eru algerlega varnarlaus, enda talsmenn þeirra ekki með beina línu til fjármálaráðherra? Við Hagsmunasamtök heimilanna hefur t.d. ekkert verið rætt á þessu tímabili enda láta þau kannski ekki nógu vel að stjórn fyrst þau vilja ekki láta þetta yfir heimilin ganga. Engar hömlur hafa verið settar á fjárfesta á húsnæðismarkaði enda er réttur þeirra í krafti fjármuna til að kaupa sér fjórðu, fimmtu eða tíundu íbúðina greinilega sterkari en þeirra sem hafa minna á milli handanna en vilja koma fjölskyldum sínum í öruggt húsnæði. Ísland, land tækifæranna — fyrir þau sem eiga fullt af peningum en alls ekki fyrir hina sem minna hafa, þau geta étið það sem úti frýs. Það væri gaman ef fjármálaráðherra gæti svarað því hvernig það geti dregið úr verðbólgu af völdum hækkandi húsnæðiskostnaðar að auka hann enn meira með því að hækka vexti og kynda þannig undir enn meiri verðbólgu af völdum húsnæðisliðar vísitölu neysluverðs. Þarna er eitthvað sem gengur augljóslega ekki upp.

Samkvæmt útreikningum ASÍ og Íslandsbanka í júní síðastliðnum höfðu mánaðarleg útgjöld fjögurra manna fjölskyldu hækkað um 82.000 kr. á einu ári. Af því voru einungis 15.000 kr. vegna hækkunar á matvælum og eldsneyti á meðan mánaðarlega vaxtagreiðslur af 40 millj. kr. óverðtryggðu lánin höfðu hækkað um 67.000 kr. Daginn eftir að þessi könnun var birt hækkuðu vextir um heilt prósentustig í viðbót. Þá hækkuðu útgjöld vísitölufjölskyldunnar um aðrar 33.000 kr. og viðbótarútgjöldin vegna húsnæðiskostnaðar voru þá komin í 100.000 kr. á mánuði. Athugið að þetta leggst ofan á þau útgjöld sem fyrir voru þannig að ef mánaðarleg útgjöld fjölskyldunnar voru 250.000 voru þau þarna orðin 350.000 í stað þess að vera bara 265.000 ef vaxtahækkanir kæmu ekki til. Sagan er ekki búin. Síðan í júní hafa vextir hækkað um 0,75% í viðbót og því hækkuðu útgjöld fjölskyldunnar um 25.000 kr. í viðbót við það sem fyrir var. Þar með eru mánaðarlegar afborganir hennar orðnar 375.000 í stað þess að vera bara í kringum 270.000, sem væri samt alveg nóg.

Þessar vaxtahækkanir eru að sliga fjölskyldur landsins en ekki verðbólgan sjálf. Hvernig getur þessi ríkisstjórn réttlætt að leggja slíkar byrðar á fjölskyldur landsins með aðgerðum gegn verðbólgu sem valda þeim um sjöfalt meiri skaða en verðbólgan sjálf? Maður hlýtur að velta fyrir sér hvort ríkisstjórnin sé búin að skilgreina ásættanlegan fórnarkostnað, þ.e. hversu mörgum heimilum hún er til í að fórna á altari bankana áður en hún dregur í land. Þau voru a.m.k. 15.000 eftir síðasta hrun sem var fórnað á þessu andstyggilega altari fjármagnsins og mörg þeirra sem voru kannski rétt að sjá til sólar á ný standa illa að vígi í þessu samstillta áhlaupi ríkisstjórnar og Seðlabanka. Ég vil segja við ríkisstjórnina að á hverju heimili eru allt frá einu og upp í fjögur, fimm eða sjö líf og kannski meira, mæður, feður og börn sem munu aldrei bera þess bætur, og þar tala ég af reynslu. Þegar verðbólgan stafar af þeim þáttum sem valda henni nú er kannski bara best að líta á hana eins og flensu sem mun líða hjá með einhverjum óþægindum sem eru þó mun skárri en aðgerðirnar. Hagkerfið mun jafna sig en ef ríkisstjórnin hagar sér eins og læknar miðalda og dregur það mikið blóð úr heimilunum að mörg þeirra munu festast í klóm fátæktar er verið að búa til framtíðarvanda að óþörfu.

Fjölskyldur eru ekki fóður fyrir fjármálafyrirtækin og eiga alls ekki að vera fórnarlömb tilrauna til að sefa verðbólguna. Eitt heimili er einu heimili of mikið. Nú þegar fjármunum heimilanna er dælt til bankanna berast fregnir af methagnaði þeirra, heilir 32 milljarðar á fyrri helmingi þessa árs. Sá hagnaður samsvarar því að hver einasti Íslendingur hafi lagt um 90.000 kr. í þennan hagnað, sem samsvarar 360.000 á hverja fjögurra manna fjölskyldu á hálfu ári. Haldist hagnaður bankanna út árið í stað þess að vaxa eins og hann mun gera verða þetta 720.000 á fjölskyldu sem samsvarar meðalmánaðartekjum einnar fyrirvinnu og tveimur mánaðartekjum hjá sumum.

Miðað við síðustu vaxtahækkanir Seðlabankans eru stýrivextir á Norðurlöndum þessir: Ísland 5,5%, í Danmörku eru þeir 0,65%, í Noregi 1,75%, í Svíþjóð 0,75% og í Finnlandi 1,25%. Munurinn á milli stýrivaxta á Íslandi og hinum Norðurlöndunum er allt frá 214% upp í 746% eða að meðaltali 483%. Þetta er raunveruleiki efnahagsstjórnar Sjálfstæðisflokksins með fulltingi Framsóknarflokks og Vinstri grænna. Hvernig er hægt að réttlæta það að Íslendingar búi við svo mikið verri kjör á húsnæðismarkaði en nágrannar okkar á Norðurlöndunum? Seðlabankar í mörgum löndum hafa jú hækkað sína vexti en þeir hafa hins vegar farið eins varlega og mögulegt er til að valda heimilunum sem minnstum búsifjum. En ekki hér á landi, nei, nei. Og þótt bara örlítið brot þjóðarinnar sé á fasteignamarkaði, kannski 2%, og þenslan af honum stafi fyrst og fremst af skorti á húsnæði og fjárfestum sem kaupa fasteignir eins og enginn sé morgundagurinn er samt farið beint í það að hækka vexti á öll heimili í landinu út af ástandinu á húsnæðismarkaði í stað þess að beina aðgerðunum að afmörkuðum hóp t.d. með því að hækka vexti á nýjum lánum. En heimilin þola meira, hefur verið haft eftir ráðamönnum sem hafa meira en 2 milljónir í mánaðarlaun og ráða vissulega við meiri útgjöld. Samkvæmt orðum fjármálaráðherra við stefnuræðu forsætisráðherra í gær hafa ráðstöfunartekjur heimilanna aukist um 60.000, en er það? Hvaða heimili hafa aukið tekjur sínar um 60.000? Hefur verið skoðað í hvaða tekjutíundum þessar 60.000 kr. hafa lent? Það er a.m.k. algerlega ljóst að ekki hafa kjör öryrkja og aldraðra, sem þurfa að treysta á almannatryggingar, hækkað svo mikið og ekki náði hungurlúsin sem þeir verst stöddu fengu í vor nálægt 60.000 kr. á mánuði. En þetta fólk situr samt í súpunni af þeim skelfilegu aðgerðum sem ríkisstjórnin og Seðlabankinn hafa komið sér saman um.

Við skulum hafa nokkra hluti algerlega á hreinu. Í fyrsta lagi er algerlega ljóst að flest heimili landsins munu standast áhrif verðbólgunnar en þau munu mörg kikna undan vaxtahækkununum sem núna er kastað fram af algjöru ábyrgðarleysi, eins og allir hafi 2 milljónir í laun á mánuði. Í öðru lagi er það staðreynd að vaxtahækkanir bitna verst á þeim sem mest skulda og hafa hvað minnst á milli handanna. Í þriðja lagi er alveg á hreinu að vaxtahækkanir skila sér beint inn í leiguverð og bitna verst á þeim þjóðfélagshópum sem allra verst standa, þar á meðal öryrkjum og öldruðum. Og í fjórða lagi þá er þetta ekki fólkið sem hefur valdið þenslunni í hagkerfinu. Þetta er ekki fólkið sem hefur eytt um efni fram því að það hefur aldrei lifað í þeim lúxus að geta það. Í fimmta lagi er þetta ekki fólkið sem hefur valdið þenslunni á húsnæðismarkaði. Á meðan hlaupa fjársterkir aðilar um fasteignamarkaðinn og fjárfesta, (Forseti hringir.) bankarnir græða á tá og fingri eins og enginn sé morgundagurinn, enda streyma fjármunir heimilanna til þeirra (Forseti hringir.) í stríðum straumi í boði ríkisstjórnar Íslands. Ríkisstjórninni og Seðlabankanum ber að verja heimilin en ekki blóðmjólka þau og soga úr þeim lífskraftinn eins og nú er að gerast.(Forseti hringir.) Heimilin eru ekki ótæmandi auðlind fyrir bankana til að gangi í og eigi kjaraviðræður haustsins að ganga greiðlega þá þýðir ekki (Forseti hringir.) fyrir ríkisstjórnina að krefja launþega um skynsemi með vaxtahækkanir upp á 633% í farteskinu. Það ætti að segja sig sjálft.