Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[14:46]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég veit ekki alveg hvar á að byrja. Í stjórnarsáttmála þessarar ríkisstjórnar er t.d. boðað að ráðist verði í aðgerðir til að loka ehf.–gatinu, ef svo má segja; vinna gegn tekjutilflutningi þar sem launatekjur eru ranglega taldar fram sem fjármagnstekjur. Ekkert slíkt er að finna í þessu fjárlagafrumvarpi. Fjármálaráðherra skýlir sér á bak við það að fjármagnstekjuskattur hafi verið hækkaður úr 10% upp í 20% — í tíð vinstri stjórnarinnar. Ég er nokkuð viss um að það gerðist þá en ekki þegar hann sjálfur var fjármálaráðherra. Það er hins vegar alveg rétt að skatturinn var í kjölfarið hækkaður upp í 22% en um leið hefur verið unnið gegn áhrifunum af því með því að hækka öll frítekjumörkin, sem þýðir reyndar að í núverandi árferði væri hægur leikur að hækka fjármagnstekjuskattsprósentuna án þess að aðrar tekjutíundir en bara sú allra hæsta myndu finna nokkuð fyrir.

Við erum hér að ræða um skattapólitík og hæstv. fjármálaráðherra segist ekki skilja hvort ég vilji hækka skatta eða lækka skatta. Ég er almennt frekar hrifinn af sköttum og það vill bara svo til að háskattasamfélög eru alla jafna þau samfélög sem eru líka dínamískust efnahagslega og þar sem fólk hefur það best. Það sem skiptir hins vegar máli er að skattarnir séu prógressífir en ekki regressífir og tækifærin eru mýmörg til að búa þannig um hnútana að skattbyrðin leggist í meira mæli á breiðustu bökin en þau mjórri. Meira að segja íhaldsstjórninni í Bretlandi finnst eðlilegt að leggja á hvalrekaskatta. Joe Biden leggur fram frumvarp sem heitir „The Inflation Reduction Act“. Hvað fjallar það frumvarp um? Það fjallar ekki um að hækka krónutölugjöld á bandarískan almenning upp úr öllu valdi. Það fjallar um það að loka fyrir skattaglufur og (Forseti hringir.) hækka skatta á stærstu fyrirtækin og ofurfjármagn. Hvernig væri nú að við á Íslandi færum einhverja svipaða leið út úr þessum hremmingum?