Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[15:42]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir hans tölu sem hugnaðist mér að mörgu leyti ágætlega. Áhugavert að hér hafa komið þrír þingmenn upp í pontu og við erum bara nokkuð sammála, hver í sínum flokknum. En mig langar aðeins, af því að hv. þingmaður er jafnframt formaður umhverfis- og samgöngunefndar, að nefna Reykjanesbrautina. Mér skilst að hún hafi verið tilbúin til útboðs í lok júní en síðan hafa þau skilaboð komið að vegna breytinga sem átt höfðu sér stað í aðgerðum ríkisstjórnarinnar á miðju þessu ári hafi hún verið slegin út af borðinu. Hv. þingmaður nefnir hér að hann vilji alltaf sjá meiri og meiri pening í samgönguinnviði og þeir séu ekki verðbólguhvetjandi, þeir geti hugsanlega verið verðbólguletjandi, fyrir utan að fækka slysum og allt sem því getur fylgt. Við vitum auðvitað að lagfæring á Reykjanesbrautinni mun svo sannarlega fækka slysum. Dæmin hafa sýnt að við erum varla að upplifa slys á Reykjanesbrautinni eftir að þær lagfæringar sem nú hafa verið gerðar áttu sér stað. Mig langar að spyrja hv. þingmann um þetta: Hvað sér hann fyrir sér með Reykjanesbrautina? Ég er búinn að vera að fletta frumvarpinu og þar eru ýmsir góðir hlutir nefndir á þessu sviði, um vegabætur, en ég sé alls ekki að Reykjanesbrautin sé nefnd á nafn. Hvað veldur þessum breytingum?