Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[16:02]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir hans tölu. Mig langar til að byrja á að grípa niður í það sem hann sagði um krónutöluhækkanir, sem hafa verið ofarlega í mínum huga allt frá því að ég áttaði mig á því að þessar breytingar væru að eiga sér stað með þessum hætti. Það hefur komið í ljós hjá fulltrúum meiri hlutans og fjármálaráðherra að ef ekki væri verið að hækka sem þessu nemur þá væri bara verið að gefa afslátt, það yrði ákveðin rýrnun á þessum tekjum. En við erum í þeirri stöðu að við erum að glíma við verulega mikla verðbólgu sem er farin að valda miklum búsifjum. Seðlabankinn er að grípa til harðra aðgerða sem bitna mjög á ungu fólki, lágtekjufólki og millitekjuhópum. Hefði ekki verið ráð, eins og hv. þingmaður nefndi hér, að fara þá leið sem var farin í ríkisstjórn sem hans flokkur sat í, og sýna gott fordæmi gagnvart því sem fram undan er? Það er auðvitað með verðbólgu kallað á verðbreytingar af því að hlutirnir kosta bara orðið meira í innkaupum og aðföngum og alls staðar er þrýstingur á verðlagsbreytingar. Hefði ekki verið rétt fyrir ríkissjóð og ríkisstjórn að gefa þetta merki og segja: Við ætlum að fara sameiginlega í átakið við að ná niður verðbólgunni?