Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[16:04]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka andsvarið. Svarið er: Jú, ég held að það hefðu verið mjög góð skilaboð fyrir ríkisstjórnina að senda út til landsmanna, að ríkisstjórnin og ríkissjóður væri í fararbroddi í því að sníða sér stakk eftir vexti, halda aftur af sér á útgjaldahliðinni og draga úr skattheimtu gagnvart einstaklingum og fyrirtækjum. Við sjáum bara í þeim tölum sem hér liggja fyrir hvernig þetta er. Ég sló saman þeim gjöldum sem snúa að akstri og ökutækjum, vörugjöld á bíla, olíugjöld og dísilgjöld, virðisauki er ekki inni í þessum tölum, og mér sýnist þetta vera rétt um 24% hækkun á milli ára, milli síðasta árs og síðan 2023 miðað við frumvarpið. Auðvitað safnast þetta saman. Síðan koma krónutöluhækkanirnar með sína milljarða og þar fram eftir götunum. Ég held að það hefði farið mjög vel á því ef hæstv. fjármálaráðherra hefði komið fram og sagt: Nú ætlum við bara að herða sultarólina hvað þetta varðar og draga úr umfangi okkar á markaðnum og ekki bæta í þessa skattheimtu sem þegar er býsna umfangsmikil.