Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[16:06]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Mér þótti áhugavert að hlusta á framkvæmdastjóra Samtaka verslunar og þjónustu þegar hann nefndi álögurnar, að ríkið tæki til sín 92%, held ég það hafi verið, af útsöluverði sterks víns. Það er orðið ansi lítið svigrúm fyrir þá sem bæði framleiða og selja að hafa einhvern hag af því að standa í þessum viðskiptum. Mig langar líka að nefna, af því að hv. þingmaður minntist á þessa afslætti sem verið er að veita til kvikmyndaframleiðslu á Íslandi, að ég sat hjá þegar þetta var afgreitt. Ég held að ég hafi verið sá eini sem gerði það og taldi ekki rétt að fara af stað með þessum hætti. Ég er tiltölulega nýr þingmaður og átta mig ekki alveg á því hvernig er verið að byggja þetta upp, þegar maður les fjárlögin sér maður að sumt er innan ramma, en hvaða ramma? Þetta er einhvern veginn alveg hulið fyrir okkur. Síðan er sumt á einhverjum kvótum eins og NPA-samningar. Svo kemur verkefni eins og Allir vinna, það er bara eins og að komast á spenann og svo er mjólkað og mjólkað. Og núna sjáum við þetta verkefni. Það er búið að kynna fyrir okkur eitthvert nýtt verkefni, Jodie Foster að koma til landsins og mikil ánægja með það, en þarna er 9 milljarða verkefni sem gæti orðið á Íslandi og hver gæti þá endurgreiðslan verið? Hún gæti verið rúmir 3 milljarðar. Erum við í stakk búin til að fara að láta flæða út úr ríkissjóði upphæðir af þessum toga þegar við erum að glíma við önnur og veigameiri mál, m.a. að sinna þessu kerfi okkar hér sem við þurfum svo sannarlega að gera þessa stundina?