Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[16:08]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi kvikmyndaverkefnið og þessa áætluðu endurgreiðslu framleiðslukostnaðar þá virðist þetta vera, eins og með svo margt annað hjá þessari stjórn þar sem ráðherrarnir virðast nú sumir hverjir ekki tala hver við annan nema í ýtrustu neyð, eitt af þessum málum sem atvikaðist bara svona einhvern veginn. Þetta var sett fram sem loforð í aðdraganda kosninga og síðan hefur niðurstaða tiltekins flokks í kosningunum væntanlega veitt honum styrk til að draga fram óformlega heimild til að tala fyrir þessu og kynna og þar fram eftir götunum og leggja fram frumvarp. Ég man reyndar ekki eftir því hvort í fréttum kom fram hvort tillögur ráðherra hefðu verið samþykktar í ríkisstjórn áður en farið var að fjalla um þær í fjölmiðlum, ég myndi frekar reikna með að svo hafi ekki verið miðað við viðbrögð fjármálaráðherra á seinni stigum. En þetta er eins og með svo mörg önnur mál, þetta atvikast bara einhvern veginn. Ef einhver festa væri í stjórn landsins væru svona mál leidd til lykta í ríkisstjórn og stjórnarflokkarnir myndu síðan sannfæra sína þingflokka um að fylgja málinu í gegnum þingið. En undanfarin misseri og undanfarin ár hefur það orðið algengara og algengara að ráðherrar tiltekinna málaflokka fari fram með málin án þess að hafa klárað þau gagnvart ríkisstjórninni eða stjórnarflokkunum og lendi þá uppi á skeri eins og er að gerast með þetta mál núna. Að því er virðist er ekki króna í frumvarpi til fjárlaga til að mæta þessum auknu réttindum sem höfðu verið teiknuð upp af hæstv. ráðherra menningar- og viðskiptamála.